136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[12:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Það sem vakir fyrir varaformanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og okkur öllum sem skipum þá sveit er að forða þjóðarbúinu sem best frá afleiðingum þeirrar óstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn, öllum stjórnmálaflokkum fremur, er ábyrgur fyrir. Hann hefur leitt okkur út í það fen sem við erum komin út í.

Spurningin er núna hvernig við tökum á þessum vanda. Það sem við erum að reyna að gera er að koma í veg fyrir að skuldbindingum verði hlaðið upp á bak þjóðarinnar til frambúðar. Út á það gengur starf okkar. Gagnvart erlendum lánardrottnum, gagnvart lántökum sem Sjálfstæðisflokkurinn var búinn að gangast fyrir varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Út á þetta gengur starf okkar núna.

Síðan erum við að skoða leiðir til að brúa fjárlagahallann fyrir næsta ár. Og við segjum: Þar þarf að fara blandaða leið. Við viljum réttlátara skattakerfi, dreifa skattbyrðunum réttlátar. Ekki níðast á lágtekjufólkinu eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert, hann hefur alltaf sett hátekjumennina í bómull. En þetta sem við erum að tala um er kjarajöfnun og það skilur Sjálfstæðisflokkurinn ekki.

En hitt skilur þjóðin, það get ég fullvissað hv. þm. Björn Bjarnason um. Hún skilur það þegar Sjálfstæðisflokkurinn stendur hér í pontu dag eftir dag, nótt eftir nótt til að reyna að koma í veg fyrir að geirneglt verði inn í lög og stjórnarskrá ákvæði þess efnis að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum. Vegna þess að við stöndum frammi fyrir þeirri hættu núna þegar lánardrottnar hafa læst í okkur klóm sínum að við missum þessar auðlindir úr landi og við ætlum að standa vörð um þær.

Það er ömurlegt að fylgjast með því og horfa upp á Sjálfstæðisflokkinn reyna að koma í veg fyrir það. (Forseti hringir.) Og síðan er verið (Forseti hringir.) að drepa málunum á dreif og ég velti (Forseti hringir.) því fyrir mér, hæstv. forseti, hvort nokkur (Forseti hringir.) flokkur hafi nokkru (Forseti hringir.) sinni lagst eins lágt í kosningabaráttu (Forseti hringir.) að gera sér mat úr útúrsnúningum (Forseti hringir.) af því tagi sem við heyrðum frá hv. þm. Birni Bjarnasyni.