138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[21:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi einfaldlega draga inn í umræðuna að ekki er sjálfgefið að löggjafarvald og framkvæmdarvald blandist með þeim hætti sem tíðkast hefur á Íslandi síðustu áratugi. Það er ekki sjálfgefið að það sé gert með þessum hætti. (Gripið fram í.) Ég held að það sé engin spurning. Allsherjarnefnd fjallar um frumvarpið og gerir breytingartillögur á því. Það er þingið sem flytur það. Hv. þingmaður gerði virðingu Alþingis og sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdarvaldinu að sérstöku umtalsefni í ræðu sinni, en heimtar svo að eftirlitsaðili eða einhvers konar yfirfrakki, einhver sem lagði frumvarpið fram, sé viðstaddur og fylgi því og hlusti á hvert einasta orð sem hann flytur úr þessum ræðustól.

Ég spurði einfaldlega: Hvers vegna er það? Ég fékk engin svör við því.