145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina fyrirspurn til hv. þingmanns og formanns Samfylkingarinnar, Oddnýjar Harðardóttur.

Í þessum sal sagði nýr forseti á setningardaginn að hann hvetti til sanngirni í umræðunni í þinginu og þjóðfélaginu. Í því ljósi vekur athygli sú umræða margra sem hefur átt sér stað á vegum Samfylkingarinnar. Mig langar að spyrja hæstv. þingmann og formann Samfylkingarinnar um þær breyttu áherslur sem koma fram í ræðum og riti hjá hennar fólki í Samfylkingunni. Þar má minnast á að í lok þingsins í vor, rétt fyrir hlé, þá kallaði formaðurinn mig Donald Trump og lýsti mér sem einhverjum rasista í því sambandi. Hún hefur hrósað Semu Erlu Serdar fyrir að kalla mig rasista á opinberum vettvangi og henni fannst það vel að verki staðið. Ég velti fyrir mér hvort það sé leiðsögn formannsins inn í þá umræðu sem forseti var að leggja okkur svo sterkar línur um.

Ég vil líka vekja athygli á því að ritari Samfylkingarinnar kallaði þrjá frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi ýmsum nöfnum. Uppnefndi ráðherrann sem duglausan, og ég velti því fyrir mér hvort hún vildi þá jafna að hennar ráðherratíð. Þar var ég uppnefndur rasisti. Einn einstaklingur var kallaður dæmdur þjófur. Ég velti fyrir mér hvort það sé þessi leið sem Samfylkingin vill fara í að tala um fólk. Er það skoðun formanns Samfylkingarinnar að einstaklingar sem hafa verið dæmdir og skilað til baka til samfélagsins því sem þeir voru dæmdir fyrir, að þeir eigi að bera þann kaleik alla ævi? Er Samfylkingin ekki tilbúin að taka á móti því fólki aftur inn í samfélagið og bera virðingu fyrir því að það hafi skilað til baka því sem því hefur misfarist í lífinu?


Efnisorð er vísa í ræðuna