145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[14:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér verður mælt fyrir frumvarpi til laga um námslán og námsstyrki. Frumvarpið er samið á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og markmið þess er í fyrsta lagi að bregðast við breytingum á íslensku menntakerfi, ekki síst háskólakerfinu, sem hafa orðið frá því að gildandi lög um sjóðinn, sem eru nr. 21/1992, voru sett. Eins og alkunna er hefur háskólaumhverfið tekið algerum stakkaskiptum, sérstaklega þegar horft er til fjölda þeirra sem stunda nám á háskólastigi og þess námsframboðs sem til staðar er miðað við það sem var þegar þessi lög voru sett eða síðast breytt.

Í öðru lagi er markmiðið að bregðast við athugasemdum sem komið hafa fram í skýrslum Ríkisendurskoðunar á undanförnum árum.

Í þriðja lagi að koma til móts við gagnrýni samtaka námsmanna, annarra hagsmunaaðila og Ríkisendurskoðunar hvað varðar það misræmi sem útdeiling ríkisstyrks til námsmanna í formi vaxtaniðurgreiðslu og afskrifta felur í sér og jafnframt að gera styrkinn sýnilegri og jafnari.

Í fjórða lagi þarf að bregðast við áhættugreiningum sem gerðar hafa verið um sjóðinn og þeirri þróun sem að óbreyttu kemur fram, en með óbreyttu fyrirkomulagi mun sjóðurinn þurfa sífellt aukið ríkisframlag. Við þessu verður auðvitað að bregðast alveg sérstaklega og námsmannahreyfingarnar hafa lýst yfir áhyggjum sínum hvað þetta varðar þar sem óbærilegt væri að málefnum lánasjóðsins væri stefnt í viðlíka óefni eins og við þekkjum t.d. varðandi Íbúðalánasjóð.

Í fimmta lagi að bæta námsframvindu nemenda og auka um leið gagnsæi í nýtingu ríkisfjár.

Í sjötta lagi að færa fyrirkomulag námsaðstoðar nær því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum.

Af því tilefni vil ég taka sérstaklega fram að þegar við horfum til ríkja annars staðar á Norðurlöndum er ekki til eitthvert eitt samræmt norrænt námslánakerfi. Hvert og eitt norrænu ríkjanna býr við sérstakt námsmannakerfi með sínum sérkennum, en þó má greina ákveðin meginatriði í hinum norrænu námslánakerfum, m.a. þau að annars vegar er um að ræða lánakerfi og hins vegar styrkjakerfi og eins líka þegar kemur að endurgreiðslu námslánanna, þ.e. endurgreiðslurnar eru óháðar tekjum. Ýmislegt annað eiga námslánakerfin sameiginlegt en ég vil vara við þeirri hugsun að til sé eitthvert eitt norrænt módel. Það er það ekki. En það eru til ákveðin einkenni. Við erum með þessu frumvarpi að færa okkur nær því fyrirkomulagi sem við þekkjum annars staðar á Norðurlöndum.

Um er að ræða heildarendurskoðun á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum. Augljóst er að upphafleg áform um gildistöku laganna sem áætluð voru 1. ágúst á þessu ári ganga ekki eftir og þarf þá í meðförum nefndar að taka afstöðu til gildistökunnar þannig að vel fari.

Virðulegi forseti. Mun ég nú víkja að meginefni frumvarpsins. Því má skipta niður í 11 atriði.

Í fyrsta lagi að sú námsaðstoð sem veitt verður mun vera í formi beins styrks og mögulegs láns á hagstæðum kjörum miðað við þau lán sem í boði eru á Íslandi. Beini styrkurinn verður 65.000 kr. á mánuði uppfylli námsmaður skilyrði laganna. Námsstyrkurinn verður veittur í 45 mánuði sem svarar til fimm hefðbundinna skólaára og getur því heildarstyrkurinn numið 2.925.000 kr. miðað við fulla námsframvindu.

Í öðru lagi hækkar framfærsluviðmið lánasjóðsins úr áætluðum 92% upp í 100% í níu mánuði ársins. Hér er á ferðinni áratugagamalt baráttumál stúdenta um að lánað sé fyrir fullri framfærslu. Þetta er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál vegna þess að ef við erum sammála um að framfærsluviðmiðið hafi merkingu og það sé það sem þurfi til til þess að geta stundað nám þá má augljóst vera að með þeirri ákvörðun að lána fyrir lægri fjárhæð en sem nemur framfærsluviðmiðinu er verið að senda þau skilaboð að stúdentar verði þá annaðhvort að eiga þessa fjármuni í handraðanum, frá foreldrum sínum eða sjálfum sér, eða vinna með skólanum til þess að hafa upp í fulla framfærslu. Með þessu skrefi væri verið að ná gríðarlegum árangri í hagsmunamáli sem stúdentar hafa lengi barist fyrir.

Í þriðja lagi verður veitt námsaðstoð til að hámarki 420 ECTS-eininga, eða í sjö ár óháð námsferli. Ég ítreka þetta hér, óháð námsferli. Það er búið að opna fyrir á milli námsstiganna, hvenær nemendur nýta sér námsmöguleikana og horfið frá því kerfi sem áður var. Þetta tel ég heilmikla bragarbót. Auðvitað er um það umræða hvort rétt sé að fara í 420 ECTS-einingar, en þá vísa ég til þess fyrirkomulags og þess einingafjölda sem við þekkjum hjá hinum norrænu þjóðunum og hvet ég hv. þingmenn til að setja þetta í samhengi við það fyrirkomulag.

Í fjórða lagi verður námsaðstoð takmörkuð við 50 ára aldur og verður ekki veitt eftir 60 ára aldur. Enn og aftur er þetta það fyrirkomulag sem við þekkjum hjá hinum norrænu þjóðunum, með mismunandi hætti þó. Þekkt er það fyrirkomulag að byrja að fasa út við ákveðin aldurstakmörk, eins og við leggjum reyndar upp með, eða gera ráð fyrir að allt námslánið sé alltaf greitt upp fyrir 67 ára aldur eða lána ekkert eftir ákveðin aldursmörk. Það eru ýmsar leiðir í þessu en við leggjum hér upp að námsaðstoðin verði takmörkuð við 50 ára aldur og fasist síðan út fram til sextugs.

Í fimmta lagi er í frumvarpinu kveðið á um hámark veittrar aðstoðar, að hún nemi að frádregnum námsstyrk 15 millj. kr., en ég vek athygli á því að þá erum við að horfa til þess að heildarnámsaðstoðin verði 17.925.000 kr. Reyndar er rétt að taka fram að yfirgnæfandi meiri hluti námsmanna, langt yfir 90%, er vel innan þeirra marka.

Í sjötta lagi er kveðið á um að vextir af námslánum fyrir hvert skólaár skuli vera 2,5% að viðbættu álagi.

Ég vil vekja athygli þingheims á því að með því að þessi vaxtaprósenta er ákveðin er hún lægri en núverandi fjármögnunarkostnaður ríkisins og ríkissjóðs. Með því að þessi tala er valin er áfram nokkur styrkur í lánunum sjálfum, en augljóslega mun minni en þegar vaxtastigið var 1%.

Ég hef tekið eftir því í umsögnum, m.a. frá stúdentasamtökunum, að því hefur verið velt upp hvort ekki mætti breyta þessu og í staðinn fyrir að fest væri 2,5% með 0,5% álagi væri það sett sem þak, því að komi sú staða upp að vaxtastigið lækki og fjármögnunarkostnaður ríkisins fari enn neðar er sjálfsagt að sjóðurinn og námsmenn þar með njóti þess. Ég mundi styðja slíka breytingu.

Gert er ráð fyrir að endurgreiðslutími námslána skuli vera 40 ár en að öll lán skuli vera greidd upp fyrir 67 ára aldur námsmanns. Greiddar verða mánaðarlegar afborganir. Þetta þýðir, virðulegi forseti, að er það miklu meira gagnsæi og fyrirsjáanleiki í þessum lánum. En vissulega er verið að hverfa frá því fyrirkomulagi sem við höfum haft áður sem er tekjutenging lánanna, þ.e. styrkurinn felist í tekjutengingunni. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er pólitískt bitbein og eðlilegt að tekist sé á um það, en ég tel að þetta sé skynsamlegra fyrirkomulag og ég mun koma að því á eftir hvaða afleiðingar það hefur að nálgast þetta með þessum hætti.

Virðulegi forseti. Í sjöunda lagi verður hægt að sækja um frestun á endurgreiðslu námslánanna vegna atvika sem valda tímabundnum fjárhagsörðugleikum í eitt ár í senn en að hámarki í þrjú ár samanlagt. Ástæða þess að sá hátturinn er hafður á lýtur að sjóðnum sjálfum, þ.e. áhættumati á honum. Ef svona ákvæði eru ekki þýðir það að áhætta sjóðsins fer vaxandi sem því nemur.

Ég vil nefna að ég á alveg von á því að líka verði tekist á um þetta, en ég vil benda á að hér er þó gert ráð fyrir því að hægt sé að fá tímabundnar undanþágur að hámarki í þrjú ár. Í ljósi þess hvert atvinnuástand er o.s.frv. þá mætti ætla að þetta dugi til, en það er alveg eðlilegt að við ræðum þetta alveg sérstaklega því að vissulega geri ég mér grein fyrir því að upp geta komið atvik sem gætu gert það að verkum að sjóðurinn þyrfti að bregðast við. Ég nefni það í framsöguræðu minni að mér finnst ekki óeðlilegt að nefndin ræði sérstaklega hvort hér þyrfti að vera meira svigrúm.

Í áttunda lagi er það sett sem skilyrði fyrir námsaðstoð að lánasjóðurinn hafi ekki áður þurft að afskrifa lán hjá viðkomandi einstaklingi. Einnig er gert ráð fyrir að endurgreiðslur námslána hefjist einu ári eftir að námi lýkur í stað tveggja ára líkt og nú er og í þessu tilviki vísa ég enn og aftur til þess fyrirkomulags sem við þekkjum annars staðar á Norðurlöndum, hvenær endurgreiðslur lánanna hefjist. Ég held miðað við samanburð á því fyrirkomulagi sem hér er lagt upp með við það sem er annars staðar á Norðurlöndum að þetta sé ágætt fyrirkomulag.

Ég tel líka að hafi lánasjóðurinn þurft að afskrifa hjá einstaklingi sé eðlilegt að gripið sé til einhvers konar ráðstafana af hálfu sjóðsins í framhaldi hvað varðar að auka lán.

Í níunda lagi er kveðið á um að aðfaranám fyrir einstaklinga sem orðnir eru 23 ára verði aðstoðarhæft. Áður hefur verið veitt lán til þess konar náms en ekki verið fyrir hendi lagastoð. Ítrekað hefur verið bent á að við því þyrfti að bregðast og það er gert í þessu frumvarpi.

Vissulega er það svo að það skapast ákveðið misræmi milli þeirra sem eru í stúdentsnámi og hefja það nám 16 ára, bóknám, og þeirra sem þetta ákvæði nær til. Ég tel að það sé réttlætanlegt, það sé hægt að verja þann mismun þannig að hvað varðar þá sem eru orðnir 23 ára og eldri og eru að leita sér að þeirri prófgráðu þá styðjum við sérstaklega við bakið á þeim umfram þá sem eru að hefja nám 16 ára og ljúka því námi í hefðbundna framhaldsskólakerfinu.

Í tíunda lagi er réttur íslenskra og erlendra ríkisborgara til námsaðstoðar skilgreindur nánar. Sérstaklega er tekinn fyrir réttur ríkisborgara EES-ríkja sem eru launþegar eða sjálfstætt starfandi hér á landi ásamt rétti aðstandenda þeirra til námsaðstoðar. Þá eru nýmæli þess efnis að námsmenn sem eru með dvalarleyfi sem flóttamenn eða með búsetuleyfi hér á landi eiga rétt á námsaðstoð að uppfylltum skilyrðum frumvarpsins. Ég tel að um þetta ætti að geta verið mjög góð sátt, virðulegi forseti.

Í ellefta lagi er með frumvarpinu veitt tímabundin heimild fyrir lántaka eldri námslána til að fá viðbótarniðurfærslu af höfuðstól námsláns gegn greiðslu aukaafborgunar. Hér er um að ræða að fyrir hverja aukaafborgun að fjárhæð 100.000 kr. er veitt 10.000 kr. viðbótarniðurfærsla eftirstöðva.

Virðulegi forseti. Í sumar var heilmikil umræða um þetta frumvarp. Ég átti fundi með rektorum háskólanna fyrir nokkru, á sumarmánuðum, þar sem rætt var um það. Í ljósi þeirra athugasemda sem höfðu áður komið fram og komu fram á fundi mínum með rektorunum vil ég leyfa mér að leggja það til við nefndina að hugað verði að breytingum á því ákvæði sem snýr að þeim tíma sem hægt er að veita námslán til þeirra sem stunda doktorsnám, þó þannig að það verði sérstaklega beint að þeim sem eru í slíku námi, það sé ekki almenn heimild heldur að þar sem um er að ræða doktorsnámið verði hægt að vera með sama námstíma á lánum eins og áður hefur verið. Ég tel að sú gagnrýni sem kom fram hafi verið réttmæt, sérstaklega í ljósi þess að það er nokkur hundraðshluti, þó ekki há tala, sem er í doktorsnámi innan lands og er á námslánum. Þetta er reyndar mikill minni hluti, mikill meiri hluti þeirra sem eru í doktorsnámi er á námsstyrkjum ýmiss konar sem geta komið úr ýmsum áttum.

Þá vil ég sérstaklega nefna að þessi ríkisstjórn hefur rúmlega tvöfaldað framlagið inn í rannsóknasjóðinn. Hv. þingmenn muna umræðu um rannsóknasjóðinn sumarið 2013 og þær áhyggjur sem þá voru uppi um stöðu þess sjóðs en sérstaklega var hávær umræða þeirra sem voru í doktorsnámi og bentu þeir á hversu mikilvægur sjóðurinn væri fyrir þá sem stunduðu slíkt nám og væru í slíkum rannsóknum, að sjóðurinn væri öflugur og hægt væri að fjármagna m.a. doktorsnám úr þeim sjóði. Með því að tvöfalda framlagið í þann sjóð höfum við stigið mjög stór skref þar á móti. En það er alveg hárrétt sem bent hefur verið á af hálfu rektora háskólanna að það fyrirkomulag sem t.d. þekkist annars staðar á Norðurlöndum er þannig að þar eru sérstakir afmarkaðir fjármunir ætlaðir til þessa náms, sem við höfum ekki hér, í það minnsta alls ekki í sama mæli, og kallar það þá á að endurskoða það ákvæði sem var í upprunalegu frumvarpsdrögunum. Ég beini því aftur til nefndarinnar og ítreka að skynsamlegt er að breyta því til fyrra horfs.

Virðulegi forseti. Mennta- og menningarmálaráðuneytið kallaði eftir og bauð upp á umsagnir um þetta frumvarp núna í sumar og ýmsir aðilar hafa brugðist mjög vel við því og lagt fram umsagnir. Reyndar er rétt að taka fram að við gerð frumvarpsins var kallað eftir hugmyndum og athugasemdum frá hagsmunaaðilum um það hvernig námslánakerfi viðkomandi aðilar vildu sjá fyrir sér. Það var kallað eftir því skriflega og síðan unnið í nefndarvinnunni á grundvelli þess.

Ég vil sérstaklega vekja athygli hv. þingmanna á þeirri vinnu sem stúdentaráð Háskóla Íslands hefur unnið. Stúdentaráðið skilaði af sér 180 síðna greinargerð og greiningu á frumvarpinu, afleiðingum þess og hvernig það muni hafa áhrif á námsmenn. Án þess með nokkrum hætti að draga úr mikilvægi annarra umsagna get ég ekki látið hjá líða að nefna að augljóst er af þeirri umsögn að þar hefur verið kafað mjög djúpt ofan í frumvarpið. Fyrir liggja umfangsmiklir útreikningar frá stúdentum á áhrifum á mismunandi námsmannahópa, mismunandi tekjuhópa o.s.frv. Ég hvet hv. þingmenn til þess að kynna sér mjög vel þá niðurstöðu sem birtist hjá stúdentaráði Háskóla Íslands. Eins vek ég athygli á umsögnum frá stúdentaráði HR og HA. Með þessu er ég ekki að draga úr vægi annarra umsagna sem fram hafa komið en ég vil benda á að þarna liggur gríðarleg útreikningsvinna SHÍ þar sem búið er að reikna út áhrifin af þessu frumvarpi í þaula, vil ég meina.

Eins vil ég nefna og benda á ágæta grein sem formaður stúdentaráðs HÍ birti í dag um þessi mál. Ég leyfi mér, með leyfi virðulegs forseta, að grípa hér niður í þá ágætu grein þar sem segir:

„Á síðustu vikum hafa einhverjir lýst yfir áhyggjum vegna frumvarps til laga um námslán og námsstyrki. Stundum hefur komið mér fyrir sjónir að eitt helsta hagsmunamál stúdenta sé gert að pólitískum slag á Alþingi og á það við um nýja námslánafrumvarpið. Nei, það er ekki fullkomið og ég mundi sjálfur vilja sjá nokkrar breytingar, en í grunninn felur það í sér stórt framfaraskref fyrir háskólanemendur á Íslandi.“

Ég ætla að leyfa mér að vitna áfram í ágæta grein formanns stúdentaráðsins þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Það er kannski ekki hægt að búa til fullkomið lánasjóðskerfi, en það er hægt að búa til betra lánasjóðskerfi. Kerfisbreytingarnar sem hafa verið boðaðar falla klárlega undir þá kröfu, en gott má alltaf bæta.“

Ég vil gera það að lokaorðum mínum, virðulegi forseti, að ýmsar þær athugasemdir og breytingar sem stúdentaráðið bendir á í greiningu sinni eru mjög áhugaverðar. Ég vona að nefndin skoði þær vel. Ég segi fyrir mitt leyti að ég er fullkomlega og algjörlega reiðubúinn til þess að eiga samtal, m.a. á grundvelli þeirra athugasemda sem þar hafa komið fram. Þótt ég sé ekki sammála þeim öllum er þar margt sem ég tel að til framfara megi horfa og nýtilegt sé í þessari umræðu. Sama á að sjálfsögðu við um aðrar umsagnir sem við höfum fengið og við þurfum að nýta þær vel.

Ég tel að hér sé um að ræða þannig breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna að þær muni reynast námsmönnum og íslenskri þjóð vel. Það er ekki vanþörf á að við gerum þessar breytingar til að styðja við háskólanámið á Íslandi. Ég tel að verði þetta frumvarp að lögum munum við stíga stórt skref í rétta átt.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.