145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[18:19]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ástæða þess að ég tek þetta upp hér er að við horfum upp á margar mjög stórar breytingar, grundvallarbreytingar, í því hvernig staðið er að stuðningi hins opinbera við almenning í landinu þegar kemur að húsnæði, þegar kemur að fjölskyldumyndun og barnabótum og þegar kemur að námi. Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar við ræðum grundvallarbreytingar eins og hér eru undir að setja þær í samhengi við aðrar breytingar sem ýmist hafa verið gerðar eða er verið að leggja til að gera.

Það sem ég held að væri mjög áhugavert að gera í meðförum þingsins væri að óska eftir því að láta vinna greiningu á því hvernig allar þessar breytingar samanlagt hafa áhrif á ungt fólk á Íslandi, hóp sem við sjáum að margir telja að hafi verið afskiptur í stefnumótun stjórnvalda og greinilega á að koma til móts við núna á lokametrum þessa kjörtímabils en kannski ekki alveg með fyrirsjáanlegum hætti, þ.e. hvernig breytingarnar munu hafa áhrif á stöðu ungs fólks. Ég vitna þá t.d. til ungs fólks sem er að koma út úr háskóla, ætlar sér af leigumarkaði inn á eignamarkað, ætlar sér að nýta einhvern séreignarsparnað, sem verður væntanlega meiri eftir því sem tekjurnar eru hærri, á að fara að endurgreiða námslán ef það hefur þurft á því að halda að taka námslán, þá væntanlega ótekjutengt líka.

Hvernig munu þær breytingar saman hafa áhrif á stöðu ungs fólks á Íslandi? Ég held að þetta hljóti að vera umhugsunarefni fyrir okkur þingmenn sem hér sitjum, því að við erum að reyna að sjá lengra en fram á næsta kjörtímabil og fram að næstu kosningum, sem eru skammt undan. Hvernig búum við í haginn fyrir þetta fólk? Og það sem við þurfum að fá greiningu á er sérstaklega hvernig þessar breytingar koma við barnafólk, endurgreiðslurnar ekki síst (Forseti hringir.) en líka auðvitað ólík áhrif milli tekjuhópa og ólík áhrif t.d. á karla og konur. Þarf ekki að fara fram slík greining áður en við ákveðum svona breytingar?