150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:20]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst að lykilspurningunni sem við þurfum öll að svara: Af hverju er þessi leið valin? Ég er ekki kominn lengra í því að svara því en að mér finnst nálgun stýrihópsins skynsamleg, að setja sér lykilforsendur m.a. með almannahagsmuni í huga. Þær forsendur fór hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vel yfir, að tryggja traustar og órofnar flugsamgöngur og að til staðar sé flugrekstraraðili þegar við förum í viðspyrnuna, og síðan að huga að áhættuþættinum og að lágmarka áhættuna. Gangi áætlanirnar eftir þá er ábyrgðin til þrautavara. Þá reynir ekki á lánalínurnar. Það er auðvitað besta staðan. Það er auðvitað það sem við horfum til og þannig lágmörkum við áhættuna af því að nýta almannafé með þessum hætti. Markmiðið er ekki beinlínis að verja hag kröfuhafa eða lánardrottna í því tilliti.

Síðan kemur hv. þingmaður inn á stöðu lífeyrissjóðanna. Auðvitað eru þeir ekkert í höftum, þeir geta fjárfest erlendis. En mér myndi ekki endast allur tíminn til þess að ræða krónuna. Hún getur líka verið mjög mikilvæg fyrir okkur hér í framhaldinu þegar við förum að ræða viðspyrnuna, eins og raunin hefur verið áður. Ég held hins vegar að lífeyrissjóðirnir, af því að þeir snerta almannahagsmuni, muni auðvitað þegar hlutafjárútboðið fer fram þurfa að horfa til allra þeirra þátta sem liggja undir, bæði áætlananna og (Forseti hringir.) þess sem býr að baki, kostnaðarmódels, tekjugreininga, eftirspurnar o.s.frv.