136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[11:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alveg ótrúleg ræða hjá formanni Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn taldi í janúar að það væri ekki rétt að kjósa fyrr en í fyrsta lagi í haust vegna þess að það þyrfti svo umfangsmiklar og viðamiklar björgunaraðgerðir, (Gripið fram í: Leiðtogastjórn.) hvers konar ríkisstjórn sem hefði innt það af höndum. Svo illa mat Sjálfstæðisflokkurinn í janúar að búið væri að fara með íslenskt efnahagslíf og íslenskan þjóðarbúskap að það þyrfti upp undir ár til að reyna að greiða þannig úr málum að hægt væri að kjósa. (Gripið fram í.) Síðan gefst sú ríkisstjórn upp og ríkisstjórn er mynduð sem hefur innan við (Gripið fram í: Það var Samfylkingin sem gafst upp.) 90 daga til að reyna að greiða úr málum þannig að hægt sé að kjósa við bestu mögulegar aðstæður. Það tel ég að búið sé að gera. Í öllum aðalatriðum hefur þessi ríkisstjórn hrint í framkvæmd þeim málefnapakka, þeim stuðningsaðgerðum í þágu heimila og fyrirtækja sem hún lagði upp með að gera. Það sem hefur ekki náðst í gegn hefur Sjálfstæðisflokkurinn eyðilagt eins og lýðræðisumbæturnar með málþófi. Að hlusta svo á Sjálfstæðisflokkinn hér sem taldi íslenskt samfélag og þjóðarbú svo illa leikið í janúar að það þyrfti hátt í ár í björgunaraðgerðirnar (Gripið fram í.) skammast yfir því að allur vandinn skuli ekki hafa verið leystur á einu bretti á innan við 90 dögum. Flokkurinn sem hefur ekkert annað fram að færa hér í kosningabaráttunni en málþóf og útúrsnúninga ætti að fara varlega í að gagnrýna aðra. Ef marka má andrúmsloftið í samfélaginu og vísbendingar úr skoðanakönnunum er þjóðin ekki sama sinnis og Sjálfstæðisflokkurinn og það er vel og vonandi sannast það og sýnir sig þegar talið verður upp úr kjörkössunum laugardaginn 25. apríl nk. að Sjálfstæðisflokkurinn fær makleg málagjöld.