136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[11:33]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra veit mætavel að flest þeirra mála sem hún vísar til að við höfum stutt og hafa verið afgreidd á þessu stuttu tímabili eiga rætur sínar að rekja til starfa fyrri ríkisstjórnar. (BJJ: Allt …) Þetta á hæstv. forsætisráðherra að vita mætavel vegna þess að hún sat einmitt í þeirri ríkisstjórn. Það á við um fjölda aðgerða, (Gripið fram í.) eins og t.d. um útgreiðslu lífeyrissparnaðar, mál sem var búið að fullvinna í fjármálaráðuneytinu. (Gripið fram í: Þó …) Margar aðrar slíkar aðgerðir voru komnar á lokastig þannig að það er ódýrt af þessari minnihlutastjórn að eigna sér allan ávinning af því að þessi mál skuli hafa komist í gegn á þessu stutta tímabili með okkar stuðningi og benda á það til vitnis um þann árangur sem þessi ríkisstjórn hefur náð. (Gripið fram í: Eigum við að …?)

Árangurinn sem skiptir máli um þessar mundir mælist á efnahagslega sviðinu. Þar hafa hlutirnir þróast á verri veg og þegar talað er um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið í vegi fyrir lýðræðisumbótum er það rangt. (Gripið fram í.) Við tefldum fram breytingartillögum á stjórnarskránni sem ekki var fallist á og þá stóð til í fyrsta sinn í hálfa öld að þvinga slíkar breytingar fram án þess að fullt samráð væri haft við alla flokka. Frumvarpið var lagt fram í upphafi án þess að rætt væri við Sjálfstæðisflokkinn. Mótsagnirnar og þversagnirnar í því máli eru auðvitað með miklum eindæmum og það er von að þjóðinni blöskri að það mál hafi verið jafnmikið á dagskránni hér og ríkisstjórnin hefur ákveðið að hafa það. Það var í hennar valdi að setja önnur mál á dagskrá og eins og fram hefur komið höfum við greitt fyrir þeim og stutt þau þegar þau hafa skipt máli.