136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[11:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er margt mjög sérkennilegt í málflutningi hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Í fyrsta lagi, þótt við getum ekki farið út í langar útskýringar hér, er þetta tal um 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins og hrunið í haust fráleitt. Það er væntanlega líka Sjálfstæðisflokknum að kenna að fjármálakerfi um allan heim hafa fengið þung högg, að leiðtogar stærstu iðnríkja heims, Evrópusambandsins og annarra, sitja á neyðarfundum til að fjalla um viðbrögð við fjármálakreppunni — er það Sjálfstæðisflokknum að kenna? Að sjálfsögðu. (Gripið fram í: … verra hér.) Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst því yfir að hann horfist í augu við að hafa gert mistök en að tala um 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins með þessum hætti er fráleitt, sérstaklega þegar um er að ræða þingmann úr ríkisstjórnarflokki sem átti þátt í því að stjórna landinu á síðustu árum. Sá flokkur ber að sjálfsögðu, eins og aðrir flokkar, ábyrgð á mörgu því sem úrskeiðis hefur farið, t.d. hvað varðar uppbyggingu á fjármálamarkaði, löggjöf um fjármálamarkaði og þess háttar hluti sem raunar allir þingflokkar eiga sinn þátt í. Sú löggjöf sem ríkti á fjármálamarkaði á Íslandi var í langflestum tilvikum á síðustu 10–15 árum samþykkt í fullu samráði, án athugasemda eftir fyrirskrift frá Evrópusambandinu.

Það er nú þannig, herra forseti, að þessarar ríkisstjórnar sem nú er að láta af völdum verður minnst fyrir fjölda yfirlýsinga, fyrir fjölda blaðamannafunda og fyrir stórar yfirlýsingar um markmið en ekki fyrir aðgerðir. (Gripið fram í: Þið hélduð enga blaðamannafundi eða hvað?) Við vorum ekki eins duglegir, ég játa það, hæstv. ráðherra, að halda blaðamannafundi og við gáfum út færri fréttatilkynningar. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) [Háreysti í þingsal.] (Forseti hringir.) Hins vegar — hæstv. forseti, ég verð að ljúka máli mínu af því að það var gripið fram í fyrir mér (Forseti hringir.) og ég tafinn í ræðustól — er staðreyndin sú (Forseti hringir.) að þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) ber sjálf ábyrgð á því hvernig nú er komið (Forseti hringir.) og það er skelfilegt til þess að hugsa að hún ætli að starfa áfram að kosningum loknum.