136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:02]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að það er leitt að ekki skyldi nást samkomulag hér á Alþingi um breytingar á stjórnarskránni, ég tek undir það. Það er ekki vegna málatilbúnaðar Sjálfstæðisflokksins heldur vegna þess að þeir sem tóku að sér að leggja í þennan leiðangur gerðu það með þeim hætti að liðið sundraðist.

Vegna þess sem hv. þingmaður sagði hér um auðlindir þjóðarinnar vil ég minna á það að tillaga sem við gerðum um 1. gr. frumvarpsins hljóðaði þannig:

„Íslenska ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þeirra náttúruauðlinda sem ekki eru í einkaeign og hefur eftirlit með nýtingu þeirra eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slíkar auðlindir má hvorki selja né láta varanlega af hendi.“

Þennan texta, þessar tillögu, vildi Guðjón Arnar Kristjánsson ekki samþykkja. Hann getur ekki kennt Sjálfstæðisflokknum um þá sundrungu sem varð meðal flutningsmanna frumvarpsins. Það var forustan sem brást en ekki Sjálfstæðisflokkurinn.