136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn er að berjast gegn þjóðareign á auðlindum, að það verði fest í stjórnarskrá. Hann hefur staðið gegn því árum saman og núna eyðileggur hann þetta frumvarp með málþófi og óþingræðislegum vinnubrögðum.

Eftir stendur líka að til stóð að einfalda breytingar á stjórnarskrá. Forustumenn Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bjarni Benediktsson lofuðu því öll að standa að slíku, hétu því héðan úr ræðustól Alþingis. Það er ekki að marka orð þessa fólks, ekki orð. Sjálfstæðisflokkurinn stendur ekki við fyrirheit forustumanna sinna. Hann leggur fram breytingartillögur sem fela í sér að torveldara verður að breyta stjórnarskránni, (Gripið fram í.) það verður flóknara, það dugar ekki lengur einfalt samþykki tveggja þinga samkvæmt þeim tillögum sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur núna fram. Með öðrum orðum, Sjálfstæðisflokkurinn stendur ekki við orð af því sem hann segir. Hann gerir Geir H. Haarde að ómerkingi, hann gerir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að ómerkingi og hann gerir Bjarna Benediktsson að ómerkingi.