136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:34]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Hæstv. og virðulegi forseti. Það sem mér er efst í huga á þessum tímamótum þegar þingi er að ljúka er að málið allt hefur frá mínu sjónarhorni lyktað af pólitískum hrossakaupum og það er svo ógeðfellt að hugsa um grundvöll lýðræðismannréttinda og laga og réttar ganga kaupum og sölum á þennan hátt. Ég þrái að sjá fagleg vinnubrögð, ég þrái að sjá vísindaleg vinnubrögð, ég þrái að sjá vinnubrögð sem við getum treyst á.

Ég endurtek spurningu mína til hv. þingmanns: Finnst þingmanninum að við hefðum aukið virðingu þingsins ef þetta frumvarp hefði náð fram að ganga á þann hátt sem það virtist á einhverjum tíma ætla að gera? Ég hefði talið það vera mikið slys vegna þess að hið faglega verður að fá að vera með og við eigum að ráðast í breytingar, ekki að vera hrædd við það. (Forseti hringir.) En við eigum að taka okkur tíma og ég minni á það enn fremur (Forseti hringir.) að í öðrum þjóðþingum — og ég kynnti mér þetta rækilega — það er að sjálfsögðu ákvæði í (Forseti hringir.) öllum rituðum stjórnarskrám sem ég hef heimildir um hvernig standa skuli að breytingum og (Forseti hringir.) þau ákvæði eru ekkert sett í gamni.