136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[17:29]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er sami söngurinn sem við heyrum frá Vinstri grænum þegar verið er að tala um stóriðju eða að virkja yfir höfuð og breytist ekki neitt í því, við fáum engin ný rök í málinu. Talið er að á Suðurnesjasvæðinu sé verið að nýta um 200 megavött og að þau geti farið upp í tvö þúsund megavött ef djúpborunarverkefnin, tilraunaverkefnin sem eru í gangi, ganga upp.

Auðvitað er það áhyggjuefni ef Hitaveita Suðurnesja, Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun og Landsnet fá ekki fjármagn til að fara í þær framkvæmdir. Ég lít þannig á að það sé verkefni stjórnvalda að tryggja að þessi fyrirtæki nái því fjármagni sem til þarf til þess að geta skapað þessi störf.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talar hér um að það séu bara 18 hundruð og eitthvað atvinnulausir á Suðurnesjum, (ÁI: Nú mótmæli ég …) Þá skulum við segja að ef hægt væri að koma þeim í vinnu í álveri væri miklu náð fram og þurrkað út það atvinnuleysi sem er, þó að það væru bara milli 1.800 og 1.900 manns sem fengju vinnu við það að byggja álver. En það er ljóst að í álveri er áætlað að tæplega 1.000 manns hafi þar fasta vinnu og svo eru afleidd störf hér og þar í kringum það, ýmiss konar þjónustustörf. Við þurfum á þessum störfum að halda, það er ekki spurning um það og þess vegna styð ég þetta frumvarp. Það veldur mér vonbrigðum þegar fólk eins og það sem er í þessari vinstri grænu-grúppu, svokölluðu stjórnmálaafli, skuli ekki taka sér tak og reyna að koma með lausnir á atvinnumálum fólks.