136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[17:57]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér er loks komið til umræðu það mál sem við sjálfstæðismenn höfum ítrekað kallað eftir til umræðu hér undanfarna daga. Margsinnis höfum við óskað eftir því við hæstv. forseta að hann breyti dagskrá þingsins þannig að hægt væri að ræða þetta mál á undan öðrum. En nú er málið komið á dagskrá og er það vel.

Eins og flestir hljóta að sjá er um mjög mikilvægt atvinnuskapandi mál að ræða, ekki einungis fyrir Suðurnesin þar sem álverið mun rísa í sveitarfélögunum Garði og Reykjanesbæ, heldur munu þessar framkvæmdir og starfsemin, þegar hún hefst á árinu 2011, hafa jákvæð áhrif langt út fyrir Reykjanesið.

Í meginatriðum felur þetta frumvarp í sér heimild til ríkisstjórnar Íslands og iðnaðarráðherra fyrir hennar hönd að veitt verði heimild til að semja við Norðurál Helguvík ehf. og eiganda þess um álver í Helguvík í samræmi við ákvæði frumvarpsins um að Norðurál reisi og reki álver til framleiðslu á allt að 360.000 tonnum af áli á ári. Einnig felur frumvarpið í sér undanþágu Norðuráls frá ýmsum almennum reglum vegna rekstrar álversins.

Helstu undanþágurnar snúa að frávikum frá reglum um skatta og gjöld. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að þessi frávik séu sambærileg þeim sem kveðið er á um í lögum um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga og á Reyðarfirði og heldur minni ef eitthvað er.

Efnahagshrunið síðastliðið haust hafði mikil áhrif á framkvæmdirnar við álverið í Helguvík, m.a. vegna þess að íslenskir bankar ætluðu að sjá um fjármögnun framkvæmda Norðuráls. Á sama tíma hefur heimskreppan valdið lækkun á álverði og eftirspurn eftir áli hefur minnkað vegna samdráttar á flestum sviðum framleiðslu í heiminum. Hins vegar má ætla að eftirspurn eftir áli muni aukast um leið og efnahagur á Vesturlöndum fer batnandi.

Aðdragandann að byggingu álvers í Helguvík má rekja allt til ársins 2004 þegar forsvarsmenn Norðuráls komu á fund Reykjanesbæjar til að kynna sér aðstæður í Helguvík fyrir álver sem þeir vildu ráðast í að byggja. Æ síðan hefur verið unnið að því að þetta verkefni verði að veruleika. Er skemmst frá því að segja að þetta verkefni Norðuráls í Helguvík hefur allan tímann notið mikils stuðnings og velvildar íbúa á Suðurnesjum. (Iðnrh.: Og í iðnaðarráðuneytinu.) Og í iðnaðarráðuneytinu, eins og hæstv. iðnaðarráðherra skaut hér inn í. Einnig er mikill og almennur áhugi á framgangi verkefnisins hjá verkalýðsfélögum, atvinnulífinu, verktökum, verkfræðingum, arkitektum og iðnaðarmönnum, svo eitthvað sé nefnt. Ljóst er að mörg störf muni skapast jafnt við framkvæmdina sjálfa og þegar álverið tekur til starfa.

Eins og fram kemur í nefndaráliti leitaði nefndin eftir umsögnum fjölmargra aðila þar á meðal sveitarfélaga á Suðurnesjum. Álit bárust frá sveitarfélögunum Garði, Vogum og Reykjanesbæ. Í álitum þessara sveitarfélaga kemur mjög skýrt fram að þau binda miklar vonir við álversframkvæmdir og leggja ríka áherslu á mikilvægi álversframkvæmda í Helguvík fyrir atvinnulíf og íbúa á Suðurnesjum.

Einnig komu fyrir iðnaðarnefnd fulltrúar verkalýðs- og sjómannafélags Suðurnesja sem höfðu mjög sterkar skoðanir á nauðsyn þess fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum að álver rísi í Helguvík. Þeir bentu á máli sínu til stuðnings að mesta atvinnuleysi á landinu er á Suðurnesjum en samkvæmt tölum sem mér bárust í gær eru 1.879 manns á Suðurnesjum skráðir án atvinnu sem skiptast þannig að það eru 1.089 karlar og 790 konur.

Í álveri eru fjölmörg störf fyrir bæði kynin, ekkert síður konur en karla. Má ætla að álver í Helguvík komi til með að létta á atvinnuleysi kvenna einkum þar sem Norðurál er með þá stefnu að ráða konur ekki síður til starfa en karla. Fjölmörg störf eru í álveri sem henta konum jafnt sem körlum. Þegar atvinnuástandið er með þeim hætti sem nú blasir við er ekki hægt að hafna verkefni eins og þessu. Samdráttur í byggingariðnaði er mikill á Suðurnesjum eins og annars staðar á landinu og mun því verkefni eins sem þetta hafa mjög jákvæð áhrif á byggingartíma álversins.

En ég get vissulega tekið undir það með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur og hæstv. iðnaðarráðherra að álverið verður ekki til þess að útrýma atvinnuleysi á Suðurnesjum enda er sífellt verið að kanna önnur atvinnutækifæri á svæðinu.

Virðulegi forseti. Allt frá því að varnarliðið fór af landi brott hefur atvinnuleysi á Suðurnesjum verið viðvarandi. Þegar varnarliðið fór má segja að rúmlega 700 störf hafi horfið af vinnumarkaðnum og ekki hefur enn tekist að skapa þau störf að nýju. Álver í Helguvík gefur því fólki á Suðurnesjum von um vel launuð framtíðarstörf. Þá er ljóst að bæði á byggingartíma álvers og eftir að starfsemin hefst mun álverið veita fjölda háskóla- og tæknimenntaðra einstaklinga atvinnu. Í stóriðju er talið að um 40% starfsfólksins sé með háskóla- eða tæknimenntun. Þá eru ekki taldir með arkitektar og sérfræðingar og verkfræðistofur sem m.a. þjónusta þessi fyrirtæki. Álver í Helguvík mun því hafa mikil og margvísleg áhrif á atvinnulífið á Suðurnesjum.

Starfsemi álvera byggist mjög á þjónustu utanaðkomandi fyrirtækja. Á síðasta ári greiddi Norðurál um 25 milljarða til þjónustufyrirtækja, orkufyrirtækja og í laun og launatengd gjöld. Þar af námu greiðslur til þjónustufyrirtækja um 10 milljörðum kr. Það er því eftir miklu að sækjast fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum að álver rísi í Helguvík.

Þegar varnarliðið fór af landi brott hægðist á starfsemi fjölmargra þjónustufyrirtækja sem höfðu fyrst og fremst þjónustu af varnarliðinu. Nú sjá þessi fyrirtæki möguleika á að auka starfsemi sína að nýju með tilkomu álversins.

Gert er ráð fyrir að álverið verði byggt í fjórum 90.000 tonna áföngum og að ársframleiðsla þess verði allt að 360.000 tonn. Áætlað er að álverið taki til starfa á seinni hluta árs 2011 og að fjöldi starfsmanna í fullu starfi verði þá um 210 talsins. Við gangsetningu fjórða áfanga er áætlaður starfsmannafjöldi 540 manns í fullu starfi en áfangaskipting og byggingartími mun taka mið af orkuöflun álversins auk annarra aðstæðna.

Það er því ekki nema von að sveitarfélögin á Suðurnesjum, aðilar vinnumarkaðarins og ekki síst allur almenningur á Suðurnesjum séu hlynnt því að álver rísi í Helguvík. Jákvæðni gagnvart þessum framkvæmdum í Helguvík nær langt út fyrir Suðurnesin ef marka má nýjustu skoðanakannanir en samkvæmt skoðanakönnunum Fréttablaðsins sem birtist í blaðinu um páskana kom fram að 57,5% aðspurðra sögðu já við álveri í Helguvík.

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að koma hjólum atvinnulífsins af stað að nýju. Það er álit Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands að gott svigrúm sé til stórframkvæmda á árinu 2009–2011 þar sem slaki verður í hagkerfinu á þessu tímabili að öðru óbreyttu. Sökum aukinnar þátttöku innlends verkafólks munu auknar framkvæmdir ekki valda miklum usla á vinnumarkaði. Þá má búast við jákvæðum áhrifum á gengi íslensku krónunnar og auknar framkvæmdir valdi því að vextir verði hærri en ella.

Það er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að frumvarp þetta verði nú að lögum m.a. vegna þess að fjárfestingarsamningurinn mun styðja Norðurál Helguvík við öflun fjármagns og tryggja þannig framvindu framkvæmda við álversuppbygginguna í Helguvík

Auk mikilvægis framkvæmdanna fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum og á Suðvesturhornið og þeirra jákvæðu breytinga sem það mun hafa á tekjustofna sveitarfélaga, húsnæðismarkaðinn og atvinnumarkaðinn almennt þurfum við Íslendingar á því að halda á þessari stundu að sjá fram á að það sé raunverulega verið að gera eitthvað til að koma atvinnulífinu af stað aftur og skapa ný atvinnutækifæri. Því ber að fagna. Auk þess sem verkefnið mun hafa margvísleg jákvæð hliðaráhrif eins og kom fram hjá fulltrúum sveitarfélaganna á Suðurnesjum sem komu fyrir iðnaðarnefnd. Allir mæltu þeir eindregið með að frumvarpið yrði samþykkt og skjóta með því styrkari stoðum undir atvinnulífið á Suðurnesjum eftir langt skeið atvinnuleysis, virðulegi forseti.