139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[14:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja umræðuna mikið því að við ætlum sem betur fer að gera þetta mál að lögum eftir 25 mínútur. Ég vil hins vegar sérstaklega fagna því að þetta mál er komið fram sem er m.a. afurð þeirrar skýrslu sem við stóðum fyrir á sínum tíma í þáverandi ríkisstjórn en það er að efla stöðu íslenskunnar í samfélaginu.

Ég hef margoft lýst því yfir og ég tel núna og ég vona að m.a. að stjórnlagaráð sé að líta til þess að setja ákvæði um íslenska tungu inn í stjórnarskrá, en í 1. gr. þessa frumvarps, sem við vonandi gerum að lögum eftir skamman tíma, segir, og ég vil sérstaklega fagna þessari grein:

„Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.“

Það er kominn tími til að við undirstrikum mikilvægi íslenskunnar. Á þessu vildi ég hnykkja og ég tel þessa leið og það sem hér liggur fyrir mjög góða útfærslu á því sem lagt var upp með í skýrslunni á sínum tíma. Ég vil sérstaklega fagna því að öll hv. menntamálanefnd hefur tekið þetta mál að sér og styður málið.

Að sjálfsögðu er rétt að undirstrika það sem hefur verið lengi og kannski allt of lengi að velkjast um í íslensku samfélagi og það er staða íslenska táknmálsins. Það er fagnaðarefni að við skulum núna lögbinda það, setja það í lög. Hér segir í 3. gr., með leyfi forseta:

„Íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja.

Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst. Sama rétt eiga nánustu aðstandendur.“

Ég held að þetta sé mjög til bóta og ég held líka að það sé rétt og ég spái því að í kjölfarið á lögleiðingu þessarar greinar muni líka verða aukin þekking og aukin fræðsla almennt í skólum landsins, átak í aukinni fræðslu í skólum landsins varðandi íslenskt táknmál, þannig að allir í samfélaginu skilji um hvað er að ræða.

Það er þó eitt sem ég vil draga fram, og er kannski ein helsta ástæða þess að þetta hefur ekki komist í lög fyrr, að það skiptir máli að þessum góðu orðum fylgi líka efndir og athafnir. Það þýðir að þetta kostar og það þarf að viðurkenna það. Ég hefði gjarnan viljað sjá ítarlega greiningu á því frá fjármálaráðuneytinu nákvæmlega út á hvað þetta mun ganga. Þetta mun líka þýða að aukinn kostnaður færist á sveitarfélögin að öllum líkindum og það verður að taka tillit til þess. Þetta er atriði sem við sem betur fer stöndum öll saman um og ég vil því fagna þessu sérstaklega og undirstrika að þetta er gott skref, þetta er gott mál og það sýnir sig að þegar við leggjumst öll á eitt getum við komið frá okkur góðum málum sem stuðla að því að þetta samfélag verði umburðarlyndara og framsýnt.