139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[14:54]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarpið um að gera íslenskuna að þjóðtungu og jafnframt að setja táknmálið á sama stall sem tungumál þeirra sem það kjósa. Ég hef sagt það fyrr í þessari umræðu að ég er stolt af hæstv. menntamálaráðherra, menntamálaráðherrum sem hafa lagt grunn að þessu verkefni. Ég er stolt af því að vera þingmaður á Alþingi Íslendinga sem ætlar að gera þetta frumvarp að lögum og ég skora á hv. þingmenn hér í salnum að standa sem einn maður að baki frumvarpinu, gera íslenskuna að þjóðtungu okkar Íslendinga og setja táknmálið sem fyrsta mál þeirra sem það kjósa.