144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

ný starfsáætlun.

[16:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér er oft gagnrýnt hvað minni hlutinn talar mikið um fundarstjórn forseta. Getur það verið öðruvísi þegar það er algjörlega ljóst miðað við málaþungann og þau mál sem hæstv. ríkisstjórn kallar forgangsmál sín, miðað við þau mikilvægu mál sem við þurfum að funda hér um og ræða bæði í nefnd og á þingfundi, ef við getum ekki einu sinni fengið starfsáætlun? Þá velti ég fyrir mér hvað eigi að heita stjórn yfir hinu háa Alþingi og sérstaklega velti ég því fyrir mér hver það er sem stjórnar. Ef það er hæstv. forseti Alþingis sem stjórnar hlýtur hann sjálfs sín vegna og þingsins vegna að geta sett fram tímabundna starfsáætlun til ákveðins tíma bara til þess að við vitum til dæmis hvað við eigum að gera í fyrramálið, það er mikilvægt þegar maður hefur lítinn tíma. Maður vill alla vega vita hvað gerist á morgun. Mér finnst það ekki há krafa, mér finnst það algjörlega sjálfsagt. Og mér finnst virðulegur forseti hafa þá skyldu (Forseti hringir.) að svara þessari spurningu (Forseti hringir.) með einföldu já-i, að það verði lögð fram starfsáætlun.