144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til þess að taka undir með hv. þingmanni um fjarveru hæstv. menntamálaráðherra. Það fer ekki vel á því hér þegar hv. allsherjar- og menntamálanefnd er að redda ráðherranum í stöðu þar sem tónlistarnámið er í sannkölluðu uppnámi að ráðherrann sjái ekki sóma sinn í því að vera viðstaddur þá umræðu og taka þátt í henni og svara mörgum áleitnum spurningum sem þar eru uppi. Ein þeirra lýtur auðvitað að stefnumörkuninni sem hv. þingmaður færði í tal að ekkert bólar á eftir rúmlega hálft kjörtímabil og eðlilegt að spurt sé hvar framtíðarsýn ráðherrans er í þessum mikilvæga málaflokki.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort það orsakist ekki af nokkru, verðum við ekki að álykta sem svo að stefnumörkun í málaflokknum þurfi að fylgja fjármunir? Er hin raunverulega ástæða fyrir hinum auða ráðherrastól ekki áhugaleysi hæstv. menntamálaráðherra á tónlistarnámi, því að sannarlega dregur enginn í efa einlægan áhuga hæstv. menntamálaráðherra á tónlistarnámi, en afhjúpar það ekki bara að ráðherrann hefur ekki forgangsraðað málum í málaflokki sínum með þeim hætti að það séu fjármunir til þess að leysa úr þeim verkefnum sem við blasa á sviði tónlistarkennslu, sem hefur sem betur fer farið vaxandi, og að hann hefur ekki haft afl til þess að draga fé af málaflokki sínum ellegar þá að sú hugmyndafræði sem hann stendur fyrir, sem er auðvitað hugmyndafræði um að draga úr samneyslu, draga úr hinu opinbera menntakerfi og heilbrigðiskerfi, valdi því að hann hafi engu úr að spila til stefnumörkunar?