136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

[10:40]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ekki skal lítið úr því gert að það eru mörg handtökin og margt verkið sem þarf að vinna við að endurreisa efnahagslíf okkar. Ef þetta eru skýringarnar, að verkefnið sé einfaldlega svona stórt, þurfum við að sýna einhverja biðlund en vonandi verður það ekki til þess að valda okkur frekara tjóni. Ég skil það svo að þess sé að vænta á næstunni að önnur greiðsla frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum berist samkvæmt samningi þar um. En hvenær kemur þá tímasett áætlun stjórnvalda um rýmkun haftanna eins og lagt var upp með þegar verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar var sett saman og sannarlega var það þannig á þeim tímapunkti að það lá alveg fyrir hver staða verkefna gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var? Ef hæstv. fjármálaráðherra var það ókunnugt hefði honum verið í lófa lagið að spyrja forsætisráðherra vegna þess að hún sat í þeirri ríkisstjórn sem kennt er um tafirnar.

Mér sýnist stefna í að (Forseti hringir.) loforðið um tímasetta áætlun um afnám haftanna verði ekki efnt.