136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum.

[11:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð ætlar að verja föst umsamin laun, að sjálfsögðu gilda kjarasamningar og laun. Það stendur ekki til að hrófla við því en við ætlum líka að verja störfin, við ætlum að reyna að forða því að mörg þúsund opinberir starfsmenn í viðbót lendi á atvinnuleysisskrá. Það skulu menn hafa í huga áður en þeir fara að leiða hugann að því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins skrifar góða grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fer yfir hringlandahátt sjálfstæðismanna og skammast sín fyrir flokksbræður sína (Gripið fram í.) varðandi tal um skattahækkanir. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að fara í tvo hringi í skattamálum síðan í desember. Í desember sagði fyrrverandi formaður flokksins: Það er ekkert hægt að útiloka um þörfina á frekari skattahækkunum. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins voru þeir komnir í gamla gírinn, engar skattahækkanir. Í sjónvarpinu á föstudag fyrir hálfum mánuði sagði nýr formaður Sjálfstæðisflokksins: Það er ekki hægt að útiloka einhverjar skattahækkanir, bara ekki nýja skatta. Nokkrum dögum síðar var öðrum hringnum lokað: Nei, engar skattahækkanir.

Eigum við eftir að sjá þriðja hringinn (Forseti hringir.) hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir kosningar, (Forseti hringir.) að það megi ýmist hækka eða ekki hækka skatta?