136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

málefni hælisleitenda.

[11:06]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra þessi svör. Að sjálfsögðu er ekki hægt að gefa hér út tilkynningar um það hvernig fer með mál þeirra manna sem eru í rannsókn en ég treysti því að dómsmálaráðherra vandi þá rannsókn og hagi úrslitum mála í samræmi við þá mannúðar- og lýðræðishefð sem hér hefur ríkt á flestum öðrum sviðum en í málefnum útlendinga og hælisleitenda. Við höfum ekki staðið okkur þar vel og þar er sárt að minnast afreka fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar sem nú situr í salnum sem hv. þingmaður.

Um Dyflinnar-reglugerðina vil ég segja að ég styð þátttöku okkar í henni. Ég tel að það sé jákvætt skref í evrópskri samvinnu. En við verðum líka að gæta okkar á því að þau ríki sem þar koma við sögu uppfylli þau skilyrði sem Dyflinnar-reglugerðin gerir ráð fyrir og þess vegna fagna ég orðum dómsmálaráðherra um Grikkland og aðstöðuna þar þar sem hún tekur í raun og veru (Forseti hringir.) undir með Rauða krossinum og Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna.