136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

Ríkisendurskoðun.

416. mál
[11:14]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Þó að kannski megi segja að umrædd tillaga sé lítilfjörleg er hún hins vegar stór í eðli sínu og mun hafa gríðarleg áhrif á störf þingsins á komandi mánuðum og árum. Með samþykkt þessarar breytingar hér í dag mun þingið hafa tækifæri til að fylgjast með svokölluðum E-hluta fyrirtækjum ríkisins sem eru núna 25 talsins og eru gerð upp í ríkisreikningi en eru ekki hluti af hinni eiginlegu framkvæmd fjárlaga sem fjárlaganefnd hefur alla tíð haft eftirlit með samkvæmt því sem Alþingi hefur lagt upp með.

Þar af leiðandi ítreka ég að þessi tillaga sem hér er samþykkt skiptir þingið og þingræðið miklu máli. Um leið þakka ég virðulegum forseta og hv. þingmönnum, sem komu að því í gær að koma því á dagskrá, fyrir snöfurmannleg viðbrögð.