136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[11:55]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sturla Böðvarsson kemur hingað upp og ber sig illa (Gripið fram í: Nei.) yfir því að dregið er fram að lítil auðmýkt eða sanngirni hafi falist í ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar þegar hann steig í pontu í umræðunni um þingfrestun og lýsti undrun sinni á því að núverandi minnihlutastjórn sem styðst við Framsóknarflokkinn skuli ekki hafa bjargað öllu klúðri Sjálfstæðisflokksins undanfarin 18 ár. Það var efni ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Finnst einhverjum skrýtið að mönnum hafi þótt þessi ræða algerlega laus við auðmýkt, algerlega laus við sanngirni, algerlega laus við þann veruleika sem við búum við? Finnst hv. þingmönnum skrýtið að við ræðuflutningi af þessum toga sé brugðist? Ég man a.m.k. ekki til þess að umræður af þessum toga hafi verið hafnar við umræðu um þingslit.

Síðan kemur hv. þm. Sturla Böðvarsson hér upp og vælir undan því að við orðræðu af þessum toga sé brugðist og hann kallar eftir sanngirni. Hann kallar eftir auðmýkt. Þeir sem hefja umræðu af þessum toga, standa á þeim palli sem þeir gera í umræðunni og kalla yfir sig það sem hér hefur átt sér stað, geta ekki og mega ekki væla undan þessari umræðu. Þeir mega taka þátt í henni og mæta henni með rökum, sanngirni og festu en ekki koma hér eins og hv. síðasti þingmaður, hálfvolandi í ræðustól.