136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:04]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það mátti skilja á hv. þingmanni að hann væri samþykkur þessari breytingartillögu okkar sjálfstæðismanna og það er hún sem er hér til umfjöllunar. Umræðurnar sem fóru fram í nefndinni gengu að sjálfsögðu út frá þeim tillögum sem þar lágu fyrir. Í nefndinni fór engin umræða fram að öðru leyti en því að formaður nefndarinnar hélt ræðu, aðrir tóku ekki þátt í efnislegri umræðu eða gagnrýni á breytingartillögur okkar sjálfstæðismanna.

Áður en til fundarins kom — það hefur komið fram í umræðum af hálfu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að hann og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, sem sátu formannafund fyrr (Forseti hringir.) um morguninn, höfðu fyrir fram hafnað öllum (Forseti hringir.) tillögum Sjálfstæðisflokksins. Það er sannleikurinn í málinu. (Gripið fram í: Þetta er ekki svaravert.)