136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins um það sem hér kom fram í lokin. Hv. þm. Birgir Ármannsson getur væntanlega staðfest að í heilan sólarhring var reynt að ná samkomulagi við sjálfstæðismenn. Þó nokkuð þokaðist en þeim hugmyndum sem þar fæddust eða hefðu getað leitt til sátta var hafnað. Það er best að það liggi þá fyrir og ég mun fara yfir það síðar.

Það er eitt atriði sem skiptir máli varðandi ræðu hv. þingmanns en það er að hv. þingmaður vísar til þess, og er þá að tengja við stjórnlagaþingið — og það finnst mér skipta máli vegna þess að hugmyndin um stjórnlagaþing snýst um það að taka málið út úr flokkunum, það er þetta flokksræði sem hefur verið gagnrýnt, og færa það til fólksins að velja fulltrúa sína til að setjast á stjórnlagaþing eins og gert var á þjóðfundinum 1851. Hugmynd Sjálfstæðisflokksins, þ.e. að flokkarnir á hinu háa Alþingi velji fulltrúa í nefnd til að endurskoða stjórnarskrá, er hins vegar allt annars eðlis. Það er dálítill misskilningur að bera þessar tvær hugmyndir saman. Þetta eru tvær hugmyndir af algerlega öndverðum meiði. Mér finnst hugmynd sjálfstæðismanna langt frá því að vera út úr kortinu en það er verið að leggja upp með allt aðra hugmyndafræði. Þess vegna er tillaga Sjálfstæðisflokksins engin tillaga til sátta í þeim efnum. Það er langur vegur frá því.