136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:46]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var þegar búið að boða það að fella út stjórnlagaþingið þannig að mér finnst að menn þurfi ekki að deila mikið um það, sú tillaga kom fram. Það var jafnvel búið að bjóða það að fella niður 3. gr. og þá stóð aðeins eftir 2. gr. og 1. gr.

Því miður náðu menn ekki saman um þær áherslur og útfærslur og þar komu fram breytingar af hálfu sjálfstæðismanna. Hv. þm. Jón Magnússon sagði að ég hefði verið með ómaklegar og rangar ásakanir í ræðu áðan og vænti ég þess að hann skýri það á eftir en til að átta mig á afstöðu hans spyr ég hv. þingmann hvort hann sé enn sama sinnis í því máli sem hann flutti með okkur í Frjálslynda flokknum að afnema beri veðsetningarrétt, sölurétt og leigurétt íslenskra útgerðarmanna en þeir haldi nýtingarrétti.