136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:16]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvernig í ósköpunum stóð á því að Sjálfstæðisflokkurinn lagði þá fram í nefndinni tillögu sem áður hafði verið hafnað af formönnum stjórnmálaflokkanna? Hvernig stóð á því að Sjálfstæðisflokkurinn kom með nýja tillögu um að ekki mætti vísa málum, þ.e. breytingum á stjórnarskránni, til þjóðarinnar nema að aukinn meiri hluti Alþingis, tveir þriðju, mundi samþykkja slíkar breytingar? Af hverju kom Sjálfstæðisflokkurinn með tillögur um að gera breytingar á stjórnarskránni raunar enn flóknari en þær eru í dag?

Einhvern veginn lyktar það af því að það hafi verið gert til þess að koma í veg fyrir að mál færu til þjóðarinnar. Og það vekur mér undrun, ég segi það alveg eins og er. Mér finnst það sárt vegna þess að ég ber mikla virðingu fyrir nýjum formanni Sjálfstæðisflokksins. Ég hef haft trú á því að hann mundi innleiða nýja siði og nýja sýn í þessum málum í sinn flokk, en því miður er því ekki að heilsa eins og (Forseti hringir.) málflutningur (Forseti hringir.) og vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins birtast okkur.