136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:38]
Horfa

Kristrún Heimisdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að alþingismenn og Alþingi Íslendinga þurfi alltaf að virða valdmörk sín í allri umræðu. Þess vegna var ræða mín byggð á því að hugsa til þess hvernig ákvæði stjórnarskrárinnar með þjóðareignina innan borðs yrði túlkað fyrir dómstólum landsins og eftir atvikum yfirþjóðlegum dómstólum ef um það væri að ræða. Þess vegna setti ég fram þessar skoðanir og viðhorf í ræðu minni. Með allri virðingu fyrir öllum hæstv. ráðherrum og hv. þingmönnum er það bara svo að þegar texti er kominn í stjórnarskrá er það viðfangsefni dómstóla að túlka lögin og ég lýsti því hvernig ég sæi fyrir mér að sú túlkun færi fram.

Ég ítreka að ég er þeirrar skoðunar að þjóðareignarhugtakið, sú lausn sem nefndin, sem sett var á stofn til þess að ná sátt í íslensku samfélagi um kvótakerfið fyrir tíu árum, setti fram hafi verið mjög góð og þessu samfélagi hefði farnast betur ef við hefðum borið gæfu til þess að fylgja því á sínum tíma og miklu fyrr en við höfum gert.