136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

skaðabótalög.

438. mál
[16:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Örfá orð því að hér er mikið réttlætismál á ferð. Hér er um að ræða réttarbót fyrir þann hóp manna sem er hvað verst settur í landinu, þá sem hafa misst heilsu sína og vinnugetu í slysum og þá sem hafa misst maka sína í slysum.

Með þessu frumvarpi eru leiðrétt mistök sem voru gerð við lagasetningu á árinu 1998 og urðu til þess að af rétt dæmdum slysabótum eru nú dregnar frá allar bætur almannatrygginga og úr lífeyrissjóðum samanlagðar og útreiknaðar fyrir lífstíð viðkomandi manns eins og hún er útreiknuð miðað við meðallífslíkur.

Við þessi tímamót vil ég þakka þraustseigju þeirra lögmanna sem hafa allt frá lagasetningunni fyrir um 10 árum hvatt alþingismenn, og hv. allsherjarnefnd sérstaklega, til að leiðrétta þessi 10 ára gömlu mistök. Það gerum við væntanlega hér í dag, hv. allsherjarnefnd flytur þetta mál og ég vænti mikils af niðurstöðu þess.