136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Við 1. umr. um þetta mál tók ég skýrt fram að ég styð ekki það frumvarp sem hér er lagt fram til laga um heimild til samninga um álver í Helguvík sem byggt er á fjárfestingarsamningi við Century Aluminum og Norðurál. Þetta þarf í rauninni engum að koma á óvart enda andstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til verkefna af þessu tagi ríkisstyrktra og stórkarlalegra stóriðjuframkvæmda þekkt.

Andstæðingar okkar hafa gert nokkuð mikið úr því að hér sé á ferð ríkisstjórnarfrumvarp og þeim finnst greinilega undarlegt að þeir flokkar sem starfa saman í þessu minnihlutasamstarfi í þinginu skuli ekki ganga í takt í þessum efnum.

Af þessu tilefni leyfi ég mér að minna þingheim á að þetta frumvarp er arfur frá fyrri ríkisstjórn. Þetta er arfur frá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar en á tíma þeirrar ríkisstjórnar skrifaði hæstv. iðnaðarráðherra, þáverandi og núverandi, Össur Skarphéðinsson, undir fjárfestingarsamninginn sem hér liggur fyrir. Með þeirri undirskrift var áskilið að ráðherrann flytti samninginn inn í þingið.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð tekur ekki ábyrgð á verkum fyrri ríkisstjórnar og af því tilefni var í þingflokki Vinstri grænna 4. mars sl. gerð svofelld yfirlýsing vegna málsins sem ég leyfi mér að lesa, með leyfi forseta:

„Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs staðfestir að iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, hefur heimild til að leggja fram á Alþingi frumvarp til fullnustu skuldbindinga frá tíð fyrrverandi ríkisstjórnar við Norðurál Century Aluminum um skattaleg atriði vegna áforma um álver í Helguvík. Iðnaðarráðherra er kunnug andstaða þingmanna Vinstri grænna við málið og að þeir hafa ekki heitið stuðningi við það á Alþingi.“

Undir þetta bréf ritaði fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs Jón Bjarnason sem er formaður þingflokks okkar.

Frú forseti. Ég vil líka í upphafi máls míns nefna að við í Vinstri grænum höfum margoft verið ásökuð á undanförnum vikum um að við værum að tefja það að þetta mál kæmi til afgreiðslu í þinginu. Það er alrangt. Það er kolrangt. Það er Sjálfstæðisflokkurinn einn og óstuddur sem hefur heiðurinn af því að við erum að fara að ræða þetta mál í mjög mikilli tímaþröng á síðasta degi þingsins sem þýðir að það mun fá allt of litla umfjöllun í þingsal og miklum mun færri komast að til að fjalla um það. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa flutt á áttunda hundrað ræður til að tefja fyrir þingstörfum undanfarnar vikur.

Það verður ekki sagt um okkur vinstri græn að við þorum ekki að leggja sannfæringu okkar fram fyrir þingið og standa með henni, jafnvel þó að við séum í minni hluta. Við erum ekki að reyna að hindra slíka afgreiðslu í þinginu eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert undanfarnar vikur eins og kristallaðist í dag þegar sá flokkur kom í veg fyrir að meiri hluti þingsins fengi að neyta þess lýðræðislega réttar sem á að vera aðalsmerki þessa þings, að ganga til atkvæða um mikilsverð mál.

Frú forseti. Ég sagði að ég legðist eindregið gegn þessu frumvarpi og lýsti afstöðu þingflokks Vinstri grænna. Ástæðurnar fyrir afstöðu okkar er að finna á þskj. 910 í áliti minni hluta iðnaðarnefndar sem er sú sem hér stendur og minnihlutaálitum fulltrúa Vinstri grænna í efnahags- og skattanefnd annars vegar og umhverfisnefnd hins vegar. Þau nefndarálit er að finna með nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar sem þegar hefur verið gerð grein fyrir.

Yfirlýstur tilgangur þessa frumvarps er að ætlunin sé að tryggja álfyrirtækinu Norðuráli Helguvík ehf. og eiganda þess, Century Aluminum Company, lánsfé til framkvæmda við álverið sjálft. ég ætla, frú forseti, að hlaupa aðeins á rökunum fyrir andstöðu okkar við þessi áform.

Þar er fyrst til að telja að umhverfismat framkvæmda gerir ráð fyrir heimild til að reisa álver fyrir 250.000 tonn á ári en í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir samningi um álver sem anni framleiðslu allt að 360.000 tonnum. Hér er um óásættanlegt ósamræmi að ræða og engar skýringar fengust á því í nefndinni hvernig á því stæði.

Í öðru lagi hafa ekki verið metin umhverfisáhrif tengdra framkvæmda, svo sem línulagna og virkjanaframkvæmda, til að fæða þetta álver.

Í þriðja lagi eru losunarheimildir samkvæmt frumvarpinu miðaðar við úthlutun sem tekur til áfanga með ársframleiðslu á allt að 150.000 tonnum af áli en ekki 360.000 tonnum eins og samningurinn gerir ráð fyrir. Enn og aftur er um hrópandi ósamræmi að ræða.

Í fjórða lagi bendum við á að arðsemisútreikningar byggjast á þessum háu tölum, 360.000 tonna framleiðslu. Arðsemisútreikningarnir og yfirlýsingar stuðningsmanna frumvarpsins um fjölda nýrra starfa við byggingu og rekstur fyrirhugaðs álvers byggja þar með á óraunhæfum forsendum sem ég hef rakið. Minni hlutinn telur að með því séu vaktar falskar vonir um að álverið muni í eitt skipti fyrir öll leysa atvinnuleysi í byggðum á Reykjanesi.

Þetta er afskaplega óábyrgur málflutningur. Í gær voru 1.873 á atvinnuleysisskrá á Suðurnesjum. Þeim hafði fjölgað um 50 frá síðustu áramótum og þar er um að ræða 1.095 karla og 778 konur. Ég leyfi mér að fullyrða að þessi samningur mun ekki leysa vanda þessa fólks hér og nú og ekki á næstu mánuðum og jafnvel ekki á næstu árum vegna þeirrar miklu óvissu sem um verkefnið ríkir að öðru leyti og ég mun koma að á eftir.

Í fimmta lagi er orkuöflun til verkefnisins mjög ótrygg og orkulindir á Hengilssvæðinu og á Reykjanesi munu ekki duga fyrir fullbyggt álverið, sem á að framleiða 360.000 tonn á ári, án þess að verðmæt háhitasvæði á þeim svæðum verði eyðilögð. Álverið mun þannig verða gríðarleg orkusuga sem mun leiða til þess að engin orka verður til ráðstöfunar til annarra og vistvænni verkefna.

Það er ljóst að komi þessi samningur til framkvæmda eins og hann liggur nú fyrir með 360.000 tonna framleiðslugetu verður gengið afar nærri orkulindunum á suðvesturhorninu. Líklega yrði þá ekkert eftir af orkukostum á því svæði nema virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Nái samningurinn fram að ganga gæti það af þeim sökum einum eyðilagt möguleika á verndun Þjórsár og gengið gegn vilja heimamanna í einu blómlegasta landbúnaðarhéraði landsins.

Þjóðin á heimtingu á því að fá að vita nákvæmlega hvaðan fullbyggð álverksmiðja í Helguvík hyggst fá orkuna sem enn hefur ekki verið samið um. Ég vek athygli á því að fylgiskjal númer 1 með nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar er samningur Flóahrepps og Landsvirkjunar um skipulag og undirbúning virkjunar við Urriðafoss í Þjórsá af tilteknum ástæðum. Ég hef kannski tíma til að koma að því máli á eftir.

Í sjötta lagi er vert að benda á vegna orkuöflunarinnar að hér er um að ræða ágenga en ekki sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda sem að endingu mun leiða til þurrðar þeirra. Þá er ég að tala um jarðhitavinnsluna á Hengilssvæðinu. Þar hafa verið gefnar yfirlýsingar um að menn ætli sér að fara í ágenga nýtingu. Menn ætla að fleyta rjómann ofan af orkuauðlindunum þar, fullnýta holurnar í 30–40 ár, ganga frá þeim dauðum og hvíla þær síðan í jafnlangan tíma. Það þýðir að það verður endalaus orkuvinnsla, hola eftir holu á þessum svæðum.

Þess utan, frú forseti, eru einungis 10–12% orkunnar nýtt þegar gufa frá jarðhitavirkjunum er notuð til þess eins að framleiða raforku. Ég vek athygli á því að hér er bara um mengandi sóun á orkulindum að ræða.

Í sjöunda lagi er nöturlegt að með þessum samningi er verið að veita starfsemi sem hefur í för með sér útblástur gróðurhúsalofttegunda og aðra losun mengandi úrgangsefna 20 ára skilyrðislausa undanþágu frá umhverfisgjöldum og umhverfissköttum eins og lagt er til í frumvarpinu. Við teljum rétt að leggja á starfsemi sem hefur í för með sér losun mengandi efna þá kvöð að útblásturinn verði hreinsaður til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á lífríki og heilsu manna. Engin tilraun er gerð til þess með þessu frumvarpi og það átelur minni hluti iðnaðarnefndar harðlega eins og kemur fram á blaðsíðu 3 í nefndaráliti. Ég bendi á að gróðurskemmdir sem hefur orðið vart í kringum jarðhitavirkjanir á Hellisheiði og Reykjanesi hafa nýlega verið raktar til slíkrar losunar, einkum til brennisteinsvetnis H 2 S sem er skaðlegt heilsu manna í miklum mæli.

Álverið í Helguvík mun valda verulegri losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur um 13% af heildarlosun Íslendinga á viðmiðunarári Kyoto-bókunarinnar frá árinu 1990. Ég leyfi mér að lýsa verulegum efasemdum um að Ísland geti uppfyllt alþjóðlegar samningsskuldbindingar sínar verði af byggingu og rekstri álvers í Helguvík.

Enn er ýmislegt ótalið sem skýrir andstöðu okkar við þetta frumvarp, frú forseti. Ég ætla að víkja næst að raforkuverðinu. Skemmst er frá því að segja að ekkert hefur verið upplýst um raforkuverð til fyrirhugaðs álvers og minni hluti iðnaðarnefndar gerir athugasemdir við það. Lágt orkuverð til mengandi stóriðju hefur leitt til verulegrar hækkunar á orkuverði til annarra orkunotenda og með því telur minni hlutinn augljóslega brotið gegn jafnræðissjónarmiðum og að það sé sérstaklega ámælisvert gagnvart öðrum orkunotendum sem nýta orkuna í vistvænni framleiðslu, svo sem garðyrkjubændum sem eru stórnotendur orku og stunda vistvæna starfsemi en þeir bændur hafa einmitt orðið nýlega fyrir skerðingu á umsömdum greiðslum ríkisins á raforkuverði.

Þá er enn ótalinn, frú forseti, sá mikli afsláttur sem hér er veittur á gjöldum og sköttum til þessa fyrirhugaða álvers. Helsti efnahagslegi ávinningur landsins af starfsemi stóriðju í eigu erlendra aðila er greiðsla skatta í ríkissjóð. Arðurinn af rekstrinum, ef einhver er, flyst úr landi til hinna erlendu eigenda. Minni hlutinn telur óforsvaranlegt að með fyrirhuguðum samningi um álver í Helguvík séu takmarkaðar mögulegar heimildir ríkisins til að afla tekna í ríkissjóð með veigamiklum frávikum sem þar koma fram frá reglum um skatta og gjöld á 20 ára samningstíma. Ég tel það sérstaklega ámælisvert nú þegar sýnt er að við Íslendingar þurfum að hækka gjöld og hækka skatta. Þá hefur því fyrirtæki sem hér um ræðir verið komið í einstakt skattaskjól. Samningurinn gerir ráð fyrir að félagið greiði aldrei hærri tekjuskatt en 15% og skiptir þá engu þótt tekjuskattshlutfall annarra lögaðila muni hækka á gildistíma ákvæðisins. Með þessu er í reynd verið að binda almennt skatthlutfall félagsins til frambúðar og tryggja því tiltekin skattfríðindi umfram önnur álver og annan iðnað í landinu.

Töluverðar líkur eru á því að mismunun af þessu tagi kunni að fara í bága við EES-samninginn og teljast ólögmætur ríkisstyrkur. Það er vert að benda á að samningar um álver í Reyðarfirði og á Grundartanga veita svigrúm fyrir 18% tekjuskatti en eins og allir vita er tekjuskattsprósentan núna 15% og því er með samningnum um Helguvík gengið lengra í sérstökum skattalegum undanþágum álfyrirtækja. Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðuneyti er núvirtur ríkisstyrkur til álvers í Helguvík, miðað við 20 ára samningstímann, áætlaður um 16,2 milljónir bandaríkjadala.

Ég er þess fullviss að hin álverin tvö, á Grundartanga og Reyðarfirði, munu að sjálfsögðu sækjast eftir sömu skattafsláttum og hér er verið að veita þriðja álverinu. Hér er því ekki aðeins verið að takmarka möguleika ríkisins til skattlagningar á þessu álveri heldur mun það kalla á hið sama hjá hinum álverunum tveimur enda þótt tekjuskattur yrði hækkaður á allan annan iðnað í landinu. Þá er hér komið skattaskjól fyrir þessi fyrirtæki.

Ég vil í þessu sambandi benda á að álit Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, á því hvort um ólögmætan ríkisstyrk upp á 16,2 milljónir bandaríkjadollara er að ræða liggur enn ekki fyrir. Ég hefði talið eðlilegt að bíða eftir niðurstöðu til að mynda ESA og eftir skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif stóriðju á Íslandi, að það hefði legið fyrir áður en samþykkt hefði verið heimild til handa iðnaðarráðherra um að semja um byggingu álvers í Helguvík.

Frú forseti. Álverð hefur farið lækkandi á heimsvísu og álframleiðsla hefur dregist verulega saman. Verulegar efasemdir eru því um hvort réttlætanlegt sé á viðskiptalegum og þjóðhagslegum forsendum að ráðast í uppbyggingu fleiri álvera á Íslandi. Auk þess eru allar líkur á að lánsfé til byggingar álvers, virkjanaframkvæmda og línulagna sé dýrt og í raun afar takmarkað. Orkuflutningur til álversins er einnig ótryggur í ljósi þess að sveitarstjórn Ölfuss hefur eindregið lagst gegn því að leggja raflínurnar í gegnum sveitarfélagið.

Í nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar er bent á erfiða fjárhagsstöðu móðurfélags Norðuráls sem ég hef kynnt mér nokkuð betur eftir að nefndarálitið var lagt fram. Álverð hefur á einu ári lækkað um helming, úr u.þ.b. 3.000 dollurum í 1.500 dollara á einu ári og nú er það svipað og það var á árinu 2003. Century Aluminum sem er móðurfélag Norðuráls á Grundartanga og hyggst reisa álverið í Helguvík hefur þegar lokað einu álveri sínu í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum. Samkvæmt tilkynningu frá höfuðstöðvunum var ástæða lokunar lágt heimsmarkaðsverð á áli. Við lokun álversins er talið að tæplega 680 manns muni missa vinnuna.

Þá sýna ársreikningar fyrirtækisins frá árinu 2008 gríðarlegt tap, samtals um 900 milljónir bandaríkjadollara. Það var í ljósi þess sem Logan Kruger, stjórnarformaður Century Aluminum, sagði 20. febrúar sl., daginn eftir að tilkynnt var um 700 milljóna dollara tap á síðasta ársfjórðungi 2008, að áform um uppbyggingu í Helguvík væru í endurskoðun.

Það er vert að taka fram að útlitið hefur ekki batnað síðan þetta gerðist og hlutabréf í Century Aluminum lækkuðu um 20% 30. mars sl. og aftur næsta dag um 21%, þann 31. mars. Þann 7. apríl sl. lækkaði Moody's lánshæfismat Century Aluminum vegna neikvæðra framtíðarhorfa í rekstri fyrirtækisins. Lánshæfismatið var lækkað úr B2 í CAA3. Og við Íslendingar munum hvað gerðist þegar lánshæfismat bankanna var lækkað úr A í B. Við erum að tala hér um lækkun úr B í C sem er gríðarlega mikil lækkun og þýðir í rauninni að það eru talsverðar líkur á því að fyrirtækið geti ekki staðið undir skuldbindingum sínum. Það er ekkert öðruvísi.

Áhyggjurnar sem Moody's segist hafa af eiginfjárstöðu fyrirtækisins eru eðlilega raktar til niðursveiflunnar sem er á álmörkuðunum. Matsfyrirtækið segir að þrátt fyrir að Century hafi tekið stór hagræðingarskref í starfsemi fyrirtækisins í Bandaríkjunum sé hún ólíkleg til að skila hagnaði næstu missirin. Moody's segir enn fremur að eftir að Century lokaði álveri sínu í Vestur-Virginíu og dró úr framleiðslu í öðru í Kentucky sé erfitt fyrir það að draga frekar úr framleiðslu sinni í Bandaríkjunum vegna samningsskuldbindinga. Century er skuldbundið til að halda áfram að framleiða álið jafnvel þó að þeir tapi á því. Einnig bendir þetta matsfyrirtæki á að þrátt fyrir að álver Century á Grundartanga sé mjög hagkvæmt sé ólíklegt að fjármagn flæði þaðan og dugi til þess að viðhalda núverandi starfsemi samstæðunnar á sjálfbæran hátt.

Þá er þess að geta að nýlega var vakin í Bandaríkjunum hópmálssókn gegn Century Aluminum af hálfu fjárfesta sem keypt höfðu hlutabréf í fyrirtækinu á síðasta ári og fram til 1. mars sl. Þeir telja að hlutabréfaverð félagsins hafi ekki verið rétt skráð á þeim tíma.

Hlutabréf í Century Aluminum hafa hríðfallið eins og ég nefndi áðan. Þau voru í gær 3,76 dollarar en voru fyrir ári milli 70 og 80 dollarar. Í gær höfðu þau lækkað um 2%.

Frú forseti. Ég hlýt að vekja athygli þingheims á þessari stöðu vegna þess að samningurinn við íslensk stjórnvöld, ívilnandi samningur upp á 16,2 milljónir dollara, er væntanlega metinn sem verðmæt eign hins erlenda félags og getur þess vegna eftir atvikum runnið til kröfuhafa eða gengið kaupum og sölum eins og aðrar eignir.

Frú forseti. Lokaorð mín eru þau að sá samningur sem hér liggur fyrir brýtur gegn markmiðum um sjálfbæra þróun. Hann hamlar náttúruvernd og hann hefur ekki í heiðri græna og sjálfbæra atvinnustefnu. Auk þess bendi ég á að sérstakar ívilnanir geta komið harkalega niður á uppbyggingu annarra atvinnugreina en slíkt hefur ekki verið tekið með við gerð samningsins.

Ég hvet þingheim til að skoða þetta mál út frá öðru sjónarhorni en því sem hér var helst uppi 2007 og fyrir þann tíma, að það væri bara fínt að fara í meiri orkuframleiðslu og framleiða meira ál. Hlutirnir hafa breyst. Við þurfum að nýta orkuna okkar til vistvænnar starfsemi, til fjölbreyttari iðnaðarstarfsemi. Áliðnaðurinn er ekki sá bjargvættur sem menn telja. Það var dapurlegt að hlusta á oddvita Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í gær þegar einu atvinnutækifærin sem hann gat talið upp voru störf í álverum í Helguvík og á Bakka. Það kom frá flokknum sem ætlar að skapa 20.000 störf. Þau verður ekki að finna í þessum álverum.

Ég tel þetta mjög slæman samning eins og væntanlega hefur orðið ljóst af ræðu minni og nefndarálitinu sem er allmiklu ítarlegra en ég hef haft tök á að fara yfir hér. Ég hvet þingheim til að fresta afgreiðslu þessa samnings og skoða málið betur því að margt er að í samningnum.