138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það eru liðnir meira en 40 dagar síðan ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um stærstu eigendur Íslandsbanka og Arion banka. Fyrir rúmri viku gekk ég eftir því að fá þetta svar í hendur og hæstv. forseti lofaði þá að hlutast til um að svo yrði gert. Þessi mál bar enn fremur á góma sama kvöld, 1. júní nákvæmlega kl. 19.53, og þá sagði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra: „Því er nú fyrst til að svara, að allt sem vita þarf um þessa banka liggur fyrir í grundvallaratriðum. Það liggur fyrir hverjir stjórna þeim.“ Hann sagði að það lægi fyrir hverjir ættu þá o.s.frv. Þannig að myndin er skýr að mati hæstv. ráðherra. Með öðrum orðum, það er ekkert að vanbúnaði að svara þessu. Ég veit vel að við búum núna við leyndarhyggjuríkisstjórn sem vill ákveða mál sín í reykfylltum bakherbergjum. Það liggur fyrir. En hvernig stendur á því að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra kemst upp með, viku eftir viku og mér liggur við að segja mánuð eftir mánuð, að liggja á upplýsingum sem þingmaður biður um, sem hæstv. ráðherra ber (Forseti hringir.) að svara, þegar það liggur fyrir samkvæmt hans eigin orðum að þessar upplýsingar eru tiltækar? Hann getur ekki svarað því þannig að erfitt sé að afla upplýsinganna. Hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) veit þetta, en hann vill ekki svara Alþingi. Þetta er hneyksli, virðulegi forseti, og ég krefst þess að hæstv. forseti hlutist til um þetta, þannig að málinu verði svarað áður (Forseti hringir.) en þingið fer heim.