144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að fá að heyra frá hæstv. fjármálaráðherra lexíur um samskipti minni hluta og meiri hluta á Alþingi Íslendinga. Sá minni hluti sem nú er á Alþingi Íslendinga hefur aldrei látið sér detta í hug að gera eins og þáverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili, sem birtist fyrir framan réttkjörna ríkisstjórn og sagði: Hvaða sjö mál viljið þið? Þið megið velja. Það hefur okkur aldrei dottið í hug að gera. Við virðum meirihlutavald á Alþingi. En við höfum fyrir því efnisleg rök að krefjast þess að fá að ræða grundvallarbreytingar á því t.d. með hvaða hætti fyrirkomulagi makrílveiða er háttað og hvort ný tegund sé felld inn í það kvótakerfi sem víðtækur ágreiningur er um í samfélaginu umræðulaust eða ekki. Við áskiljum okkur rétt til að ræða það og við teljum okkur skylt að hafa á því skoðun. En það er ekki (Forseti hringir.) þannig að ríkisstjórn eigi kröfu á því að fara fram án (Forseti hringir.) nokkurs samráðs við minni hlutann. Við höfum tekið vel í meðferð haftamálanna og vinnum með ríkisstjórninni að úrlausn þeirra. En við hljótum (Forseti hringir.) að krefjast alvörusamráðs um þinglokin og að gefin séu einhver fyrirheit um það hvenær þingi lýkur.