144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þingmanni um mikilvægi tónlistarnáms og tónlistarlífsins og tónlistariðkunar sem auðvitað auðgar og bætir mannlífið og telst til þess sem við tölum oft um sem hinar skapandi greinar sem hafa blómstrað á ýmsum sviðum á undanförnum árum. Tónlistin er svo sannarlega stór í því, stór útflutningsafurð frá Íslandi og á sennilega stærri þátt í landkynningu og þar með uppgangi ferðaþjónustunnar en margir átta sig á. Mætti margt um það segja.

En komandi aftur að þessu máli er þetta auðvitað allt saman eitt klúður. Málið lyktar af því langar leiðir. Í fyrsta lagi er sérkennilegt að nefndin skuli neyðast til þess að taka að sér það skítverk að flytja málið hér á lokametrum þingsins. Hæstv. ráðherra hefur greinilega ekki haft mikinn áhuga á því eða ekki komið því fram eða hvað það nú er sem veldur því að þetta kemur svona ákaflega seint hingað inn.

Þá að þessu með 30 millj. kr. peningana sem á að hafa af varasjóði húsnæðismála í ár. Ef ég skil þetta rétt eru það auðvitað nýir peningar, það er verið að reyna að skafa inn í þetta 30 milljónir í viðbót til að bjarga svona sárasta vandanum með því að þessir fjármunir sem sveitarfélögin hefðu annars látið renna til varasjóðsins ganga þá í þetta. Ríki og sveitarfélög hafa verið í samfloti um það mál líka og það var eindreginn vilji, alla vega ríkisins á þeim árum sem ég kom að þessu, að halda varasjóði húsnæðismála á lífi, þess vegna studdi ríkið við bakið á honum með að vísu lágum fjárhæðum og sveitarfélögin settu sitt þar á móti. Þannig að ég tel þetta vera mikla fjallabaksleið. Auðvitað geta menn sagt: Ja, þetta er þá bara þeirra mál úr því að þeir ákveða að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi, en þó ekki. Þess vegna hef ég verið að spyrja um framtíðina. Hvað er þá ætlast fyrir (Forseti hringir.) um varasjóð húsnæðismála að þessu ári slepptu?