145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég ætla að tala um samkeppni. Eins og virðulegur forseti veit er ég ekki fædd í gær. Ég vann hjá EFTA um það bil sem frelsi í samgöngum var innleitt í Evrópu, áður hafði ég unnið hjá Evrópusamtökum flugfélaga, British Airways, Lufthansa, Air France og þeim öllum. Auðvitað börðust þau samtök svo lengi sem þeim var unnt gegn því að fleiri flugfélögum væri leyft að fljúga, allt færi til fjandans, sögðum við. En berum saman framboð og verð í flugi rétt fyrir eða um 1990 og nú. Ég var líka hjá EFTA þegar fjarskiptalöggjöfinni var breytt, einkaleyfin voru tekin af ríkisfyrirtækjum. Þá var því líka spáð að allt færi til fjandans. Önnur hefur sannarlega orðin raunin. Samkeppni er nefnilega lykilorð í viðskiptum og þjónustu við fólk. Samkeppni er lykilorð í því að lækka verð til neytenda og auðga um leið atvinnulífið. Það á ekki bara við í flugi og fjarskiptum, það á líka við um mjólk og fisk. Þessa vegna á að fella Mjólkursamsöluna og starfsemi hennar undir samkeppnislögin. Það mun stuðla að lækkun verðs á mjólkurafurðum til neytenda.

Samkeppni, samkeppni, samkeppni á almennum markaði er lykilorð. Það gildir ekki bara um mjólkuriðnaðinn, það gildir líka um fisk. Það á að vera samkeppni um fisk sem seldur er úr landi og það á að vera samkeppni um fisk sem seldur er í land. Það þurfa sjávarútvegsfyrirtækin hér að vita, það stuðlar að betri nýtingu hráefnisins.

Virðulegi forseti. Mér finnst rétt að enda þessar hugleiðingar mínar á því að minnast á grein sem Ólafur Stephensen skrifar í Morgunblaðið í dag, held ég, um Auðkenni. Þar kemur í ljós að við samkeppnisleysið bætist það að ríkisvaldið í krafti skuldaleiðréttinga afhenti einu fyrirtæki markaðinn, svo að segja. Það er ekki gott.

(Forseti (EKG): Forseti vill biðja hv. þingmenn að fara gætilega með orð sín og nota ekki bölv í umræðum í ræðustólnum.)


Efnisorð er vísa í ræðuna