145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[16:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður að heyra að hv. þingmaður fagnar því að við viljum greiða inn á lífeyrisskuldbindingarnar. Fyrrverandi hæstv. fjármála- og forsætisráðherra, Geir H. Haarde, sem beitti sér mest fyrir því, fékk engin fagnaðaróp þegar hann stóð fyrir því á sínum tíma. Það er vonandi að menn séu að öðlast betri skilning á því. Það hefur verið lagt mikið upp úr viðhaldi á vegum í tíð þessarar ríkisstjórnar en auðvitað má gera betur. En ef við tölum um mistök þá hefði verið betra að mínu áliti, við erum að tala um fortíðarmistök, að menn hefðu farið eftir því sem Göran Persson lagði til þegar hann kom í heimsókn eftir fjármálahrunið og lagði á það áherslu að menn færu strax í skipulagsbreytingar hjá hinu opinbera en færu ekki í flatan niðurskurð og sömuleiðis að menn mundu reyna að halda uppi framkvæmdastiginu eins mikið og mögulegt væri. En það er eitthvað sem er búið. Við breytum því ekki. Á þeim tíma flúðu iðnaðarmenn landið og það hefði verið hægt að fá verkin mun ódýrara en núna. Við erum í þeim vanda, alveg eins og hv. þingmaður nefndi, (Forseti hringir.) að það þarf að raða þessu án þess að koma með þenslu. Það er verkefnið sem við stöndum frammi fyrir núna. En við erum sammála um að það þarf að fara í innviðauppbyggingu.