138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

almenn hegningarlög.

649. mál
[13:56]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, en það er lagt fram svo unnt sé að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu.

Íslensk stjórnvöld hafa tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi gegn spillingu um árabil, einkum á vettvangi Greco sem eru samtök ríkja í Evrópuráðinu gegn spillingu. Einnig ber hér að nefna starf innan OECD sem beinist aðallega gegn mútum í alþjóðlegum viðskiptum. Það skiptir afar miklu máli, ekki síst nú á tímum, að taka þátt í slíku samstarfi og byggist það ekki síst á því að við séum aðilar að öllum helstu alþjóðasamningum gegn spillingu. Bæði auðveldar slík aðild okkur alþjóðlega lögreglusamvinnu á borð við alþjóðlega réttaraðstoð og einnig er mikilvægt að landsréttur hverju sinni sé í fullu samræmi við þau viðfangsefni sem við er að glíma, að landslög geri okkur kleift að berjast gegn spillingu með öllum tiltækum ráðum.

Virðulegi forseti. Sá samningur Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu sem nefndur var í upphafi kallar reyndar ekki á miklar lagabreytingar. Það skýrist að miklu leyti af því að undanfarin ár hafa almenn hegningarlög tekið breytingum vegna annarra alþjóðlegra samninga eða tilmæla sem gerð hafa verið, einkum á vettvangi Evrópuráðsins en einnig Sameinuðu þjóðanna. Nýjasta lagabreytingin var samþykkt á hinu háa Alþingi rétt fyrir áramót og á ég þar við lög nr. 149/2009, um breyting á almennum hegningarlögum, sem sett voru m.a. í tilefni af fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna gegn skipulagðri glæpastarfsemi, svokallaðs Palermo-samnings, svo og tilmæla Greco-ríkjahóps Evrópuráðsins gegn spillingu.

Ákvæði samningsins sem nú eru til umræðu og hafa mesta þýðingu fyrir refsilöggjöfina er að finna í 3. og 5. kafla hans. Er þar m.a. kveðið á um refsinæmi þess að bjóða innlendum eða erlendum opinberum starfsmanni mútur sem og þess að slíkir aðilar þiggi mútur. Að sama skapi mælir samningurinn fyrir um refsinæmi peningaþvættis, mútugreiðslna innan einkageirans og áhrifakaupa svo eitthvað sé nefnt, en um áhrifakaup er að ræða ef embættismaður eða annar maður sem hefur raunveruleg eða ætluð áhrif á ákvarðanatöku í tilteknu máli skiptir þeim áhrifum út fyrir óviðeigandi ávinning frá aðila sem vill hafa áhrif á ákvarðanatökuna.

Í almennum hegningarlögum er þegar kveðið á um refsinæmi þeirra verknaða sem nefndir er í samningnum, og kallar aðild að samningnum því ekki á aðrar breytingar á lögum á forræði dómsmála- og mannréttindaráðuneytis en þá einu sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frumvarpsins. Þar er lögð til viðbót við lögsöguákvæði 6. gr. almennra hegningarlaga þannig að heimilt verði að sækja mann til saka eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot sem falla undir fyrrgreindan samning, enda þótt þau séu framin utan íslenska ríkisins og án tillits til þess hver er að þeim valdur. Er það gert til þess að fullnægja skilyrðum 42. gr. samningsins.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisákvæði frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.