139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

atvinnuuppbygging í Þingeyjarsýslum.

[10:48]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég veit það jafn vel og hv. þingmaður að Þingeyingar eru tilbúnir fyrir þessa atvinnuuppbyggingu enda erum við í mjög nánu samstarfi við heimamenn. Sú viljayfirlýsing sem verið hefur í gildi milli ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna á svæðinu er runnin út og núna höfum við komist að samkomulagi um nýja viljayfirlýsingu sem verður undirrituð á næstu dögum. Hún felur í sér að það verði farið í greiningu á innviðum svæðisins til að undirbúa þá atvinnuuppbyggingu sem fram undan er. (Gripið fram í: Núna fyrst?)

Landsvirkjun hefur tekið ákvörðun í stjórn um að gefa í varðandi rannsóknirnar í sumar þannig að það verði farið í frekari rannsóknir en þegar hafa verið tilkynntar á svæðinu nú þegar á þessu sumri. Ástæðan er einföld, þarna eru menn að flýta þeim framkvæmdum sem fram undan eru vegna þess að það eru virkar viðræður við marga aðila um kaup á þessari orku og menn eru bjartsýnir á að því ljúki á komandi mánuðum.

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður deilum þeim áhuga að þarna verði öflug atvinnuuppbygging. Ég held að hann eigi ekki að taka því sem vondum fréttum ef hann heyrir engar fréttir heldur er yfirleitt reglan sú að engar fréttir eru góðar fréttir. (Gripið fram í.) Menn hafa unnið þarna vinnuna sína og það hefur verið málinu til heilla að um það er ekki samið hér í þingsölum, heldur er verið að semja um það þar sem samningar eiga að fara fram, á millum orkusala og orkukaupa. Þess vegna gengur þetta verkefni vel, virðulegi forseti, vil ég meina, vegna þess að af því hafa ekki verið of hörð pólitísk afskipti.

Ég segi, virðulegi forseti, að núna eru góðu fréttirnar líka þær að sveitarfélögunum sem eru að fara með okkur inn í þessa viljayfirlýsingu hefur fjölgað. Tjörneshreppur verður núna með í henni þannig að ef eitthvað er hefur samstaðan um verkefnið breikkað á svæðinu og (Forseti hringir.) við megum búast við að þarna verði mjög mikið um að vera strax í sumar.