139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

fundarstjórn.

[15:08]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er alveg rétt sem kemur fram í umræðunni, það eru fjölmörg álitaefni sem snúa að þessum gríðarlega víðfeðmu, flóknu og stóru málum sem lúta að stjórn fiskveiða. Á því höfum við margar skoðanir sem spanna alla regnbogans liti. Það sem skiptir mestu máli núna er að leyfa 1. umr. um málið að hafa sinn gang. Við erum að ræða öll þessi álitaefni. Þótt það sé að mörgu leyti óvenjulegt að fá umsögn þar sem fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins bendir á þetta er um leið mjög jákvætt að skrifstofan skuli ekki liggja á slíkum skoðunum eða ábendingum þannig að við getum skoðað í þingnefndinni hvort útdeiling auðlindagjaldsins, eins og þarna er lögð upp, brjóti í bága við stjórnarskrá og breytt því. Þetta er 1. umr. um málið. Leyfum málinu að ganga fram með eðlilegum hætti og tökum síðan til við það í þingnefndinni að bæta úr öllum ágöllunum á málinu. Þeir eru nokkrir eins og ég mun gera grein fyrir frá mínum sjónarhóli hérna síðar í dag en fyrst og fremst þurfum við að leyfa lýðræðinu að hafa sinn gang og klára 1. umr. um málið.