145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

upphæð barnabóta.

[11:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er þannig með bótakerfin að við höfum litið þannig á að við höfum úr takmörkuðu magni peninga að ráða, að við værum með takmarkaða sjóði til þess að greiða út bætur. Þegar maður hefur takmarkaða sjóði þá horfir maður yfir sviðið og spyr sig: Hvert vill maður helst senda þessa fjármuni? Við erum þeirrar skoðunar að við eigum helst að beina þeim til þeirra sem eru í mestri þörf, sem hafa minnst á milli handanna, þeirra sem hafa lægstar tekjurnar og búa við þrengstan kostinn. Samfylkingin hefur ávallt verið þeirrar skoðunar að þetta skipti engu máli. Við eigum að taka barnabætur og ýmsar aðrar bætur og dreifa þeim jafnt til allra alveg óháð tekjum. Í dag erum við að greiða barnabætur til einstæðra allt upp undir, ef ég man rétt, um 900 þús. kr. við vissar fjölskylduaðstæður. Í þeirri langtímaáætlun sem var nefnd er einfaldlega verið að halda því til haga að ef við ætlum að gera vel við þá sem hafa minnst á milli handanna þá verðum við að draga úr bótum til þeirra sem meira hafa. Það er sú stefna sem ég styð.

Svo er ágætt að halda því til haga þegar fólk segir að millitekjufólk í öðrum löndum fái miklu hærri barnabætur hver er á endanum að greiða þær barnabætur. Það eru auðvitað skattgreiðendur í viðkomandi löndum. Það er ekki hægt að taka þessa umræðu án þess að horfa á skattumhverfið og skoða ráðstöfunartekjur í heild. (Gripið fram í.) Ég er ánægður með það að menn á Íslandi skuli telja rétt að bera ráðstöfunartekjur og væntingar um ráðstöfunartekjur við eitt ríkasta land í heimi. Er það ekki bara ágætt að við teljum okkur vera í stöðu til þess að bera okkur saman við það sem best gerist í heiminum? Við skulum halda því áfram vegna þess að ég trúi því að ef við stígum eitt skref í einu þá munum við áfram vinna okkur í átt til þess sem best gerist í heiminum í þessum efnum og að við getum búið (Forseti hringir.) millitekjufólki á Íslandi einhver þau bestu lífskjör sem bjóðast í heiminum.