145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[14:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum einmitt í grundvallaratriðum ósammála um þessa sýn. Þegar við skattleggjum ekki sjálfsaflafé fólks þá erum við ekki að gefa skatttekjur ríkisins, við erum einfaldlega að taka minna í skatta. En það er eins og hv. þingmaður líti alltaf þannig á að þetta byrji á því að ríkið eigi allt sem fólk vinnur sér inn og svo leyfir það því að halda hluta af því. Það er framlag ríkisins til viðkomandi eftir að hann hefur innt sína vinnu af hendi. Þegar ríkissjóður var, á árunum 2009 og 2010, 2011, 2012 og 2013, samanlagt rekinn með 390 milljarða halla, af ýmsum ástæðum sem ekki er tími til að fara út í hér, þá spyr maður sig: Hvað ætli tekjuskattsbreytingarnar hafi létt þennan hallarekstur mikið? Ég leyfi mér að efast um að það hafi skipt miklu. Er ekki staðreyndin sú að þriggja þrepa tekjuskattskerfið var að mjög litlu leyti tekjuöflunaraðgerð í stóra samhengi ríkisfjármálanna, en aðallega tekjujöfnunaraðgerð í anda vinstri flokkanna?

Þegar við nú höfum gert breytingu til baka og höfum frá og með næstu áramótum tvö þrep þá verðum við með þrep upp í 800.000 kr. sem er lægra en lægsta þrepið í gamla kerfinu. Hverjir ætli njóti nú mests af þeirri breytingu? Það er millitekjufólkið en líka lágtekjufólkið vegna þess að það greiðir lægri tekjuskatt. Það eru þeir sem eru með tekjur yfir 800.000 kr. sem njóta minnst af þessari breytingu.

Svo er ekki hægt að gleyma því fyrst menn vilja tala um það að þeir hafi sérstaklega hlíft lægstu launum að vinstri stjórnin afnam verðtryggingu persónuafsláttar vegna þess að það voru þrengingar í ríkisfjármálum. Með því að afnema tímabundið vísitölutengingu persónuafsláttar þá kom það verst við þá sem voru tekjulægstir. Þessu er ekki hægt að sleppa vilji menn fara ofan í smáatriðin.