138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

almenn hegningarlög.

649. mál
[14:03]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar hina evrópsku handtökuskipun stendur málið þannig að undirbúningur lagabreytinga er í gangi í dómsmálaráðuneytinu. Það þarf að semja viðamikið frumvarp þessa efnis. Við erum þegar búin að innleiða hina norrænu handtökuskipun sem kölluð er og frumvarp þess efnis var samþykkt á Alþingi núna fyrir áramótin, en það sem eftir stendur er þá hin evrópska handtökuskipun. Það sem hin evrópska handtökuskipun felur í sér er töluverð breyting frá því kerfi sem við vinnum núna í sem er þá framsal sem byggist á Evrópuráðssamningi um framsal.

Hin evrópska handtökuskipun byggir í rauninni á því fullkomna trausti aðildarríkjanna að handtökuskipun gefin út í einu landi gildi með svo beinum hætti í öðru landi að það væri sem hún væri gefin út af eigin yfirvöldum. Tökum dæmi: Handtökuskipun á Ítalíu mundi gilda sem íslensk handtökuskipun fyrir íslenskum yfirvöldum. Þetta er auðvitað mjög víðtækt traust og víðtæk samvinna, og kallar á lagabreytingar.

Annað sem handtökuskipunin felur í sér er að ekki verði vikist undan því að framselja eigin ríkisborgara. Það er líka töluverð breyting frá því sem verið hefur. Ég ætla bara að segja í sambandi við framsalsmálin að það fer auðvitað eftir landsrétti hvers ríkis hverjar synjunarástæðurnar eru. Vil ég nefna t.d. að um daginn féll hæstaréttardómur í máli þar sem ekki var fallist á framsalsbeiðni frá Íslandi vegna þess að íslensk landslög leyfðu það ekki. Með því er ég að segja að það eru ýmsar synjunarástæður í landslögum hvers ríkis sem geta komið í veg fyrir framsal, hvað sem framsalssamningum líður.