145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

orð ráðherra um stöðu fjölmiðla.

[10:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég var ekki að biðja hæstv. ráðherra að biðjast afsökunar og er ekkert sérstaklega æst yfir málinu og bið hæstv. ráðherra að vera (Gripið fram í.) heldur ekkert viðkvæman fyrir því að orð hans séu tekin hér til umræðu. Það er ósköp eðlilegt að við gerum þá kröfu að orðum fylgi ábyrgð, sérstaklega í tilfelli hæstv. ráðherra, formanns stærsta stjórnmálaflokks landsins. Hann nefndi hér, já, það er örugglega hægt að fara í aðgerðir. Og ég velti fyrir mér hvaða aðgerðir ríkisstjórnin gæti ráðist í, stjórnvöld á hverjum tíma, Alþingi. Það erum við sem setjum lagaumhverfi fyrir fjölmiðla, það er þessi ríkisstjórn sem jók hlut Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, þvert á stefnu sem hafði verið mörkuð á fyrra kjörtímabili. (Gripið fram í.) Það er umhugsunarefni fyrir aðra fjölmiðla í landinu að það var ákvörðun núverandi ríkisstjórnar. Hæstv. ráðherra nefnir að það megi kannski eitthvað gera en viðrar um leið þá skoðun að það eigi bara að vera ein pólitísk skoðun á hverjum fjölmiðli. (Gripið fram í.) Mér finnst að þar eigi ekki að vera ólík skoðun frá degi til dags, sagði hæstv. ráðherra áðan. (Gripið fram í.) Þá spyr maður: Ef fólk hefur áhyggjur af stöðu fjölmiðla, væri þá ekki ráð að orða það með uppbyggilegum hætti fremur en að henda því framan í fjölmiðla að það væri eins gott að stofna bara eina Facebook-síðu?