145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

húsnæðiskaup og vaxtastig.

[10:57]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mér finnst það dapurleg svör að allir aðrir séu svo ómögulegir að ekki sé hægt að lækka vexti. Hæstv. fjármálaráðherra er í lykilstöðu til þess. Hann gerir það með aga í ríkisfjármálum og hann gerir það með því að ausa ekki 80 milljörðum úr ríkissjóði. Björt framtíð vildi það ekki. Það var hæstv. ráðherra (Gripið fram í.) sem gerði það. Það var hæstv. ráðherra sem gerði það. (Gripið fram í.) Hann á að sýna aga í ríkisfjármálum til þess að hér sé stöðugt efnahagslíf, til þess að vextir verði lágir. Það er dapurlegt að heyra að formaður Sjálfstæðisflokksins og hæstv. efnahagsráðherra hafi engar hugmyndir um hvernig eigi að koma því á. (Gripið fram í.) Nei, þetta er allt öðrum að kenna. Þetta er einhvern veginn atvinnulífinu að kenna. Hæstv. ráðherra er þarna í lykilstöðu. Mér finnst dapurlegt að heyra að hann hafi ekki betri framtíðarsýn en þessa.(Gripið fram í.)

Endalaus ríkisafskipti inn í markaðinn er það sem þessi hæstv. ráðherra stendur fyrir og það mun leiða til hækkandi húsnæðisverðs (Forseti hringir.) og það mun ekki gera ungu fólki kleift eða gera því auðvelt að koma sér á húsnæðismarkað. (Forseti hringir.) Það er bara þannig.