145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er jákvætt að loksins komi tillögur um stuðning við ungt fólk á húsnæðismarkaði en um leið ótrúlega ósanngjarnt að það eigi að vera meiri stuðningur við tekjuhærra ungt fólk en við tekjuminna ungt fólk. Ég spyr fjármálaráðherra: Getum við ekki a.m.k. haft sömu krónutölu í stuðning við tekjulægra unga fólkið og hið tekjuhærra með svipuðum hætti og gert er í persónuafslættinum?

Í öðru lagi vil ég spyrja fjármálaráðherra um hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins sem hann kynnti í stefnuræðu forsætisráðherra í upphafi þessa þings. Á níunda áratugnum ruddi sér þar til rúms hugmyndafræði um einföldun skattkerfis, almennar skattalækkanir og frelsi fólks til að ráðstafa fjármunum sínum. Nú koma hvað eftir annað tillögur um það að fólk fái skattafslátt ef það leggur til hliðar til elliáranna, ef borgar inn á húsnæðislánin sín, ef það sparar sér til að kaupa íbúð, ef það fjárfestir í nýsköpunarfyrirtækjum. Ég spyr formann Sjálfstæðisflokksins hvort flokkurinn sé með þessari stefnumörkun að hverfa aftur til svona sparimerkjaáherslna (Forseti hringir.) eða þeirrar hugmyndafræði sem var ráðandi í flokknum fyrir tíma frjálshyggjunnar á níunda áratugnum.