150. löggjafarþing — 135. fundur,  2. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[22:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er erfitt að lifa á strípuðum atvinnuleysisbótum. En hversu erfitt er að lifa á engum bótum, ekki krónu, eins og sumir hafa þurft að gera mánuðum saman? Listamenn og skjólstæðingar Vinnumálastofnunar sem hafa beðið allt upp í tíu til ellefu vikur án þess að fá krónu.

Í nefndarálitinu er talað um þá sem eiga langveik börn. Enginn gerir sér grein fyrir í hvaða erfiðleikum það fólk er, hversu erfitt ástandið er oft hjá því. Það er ekki hægt að setja sig í þau spor nema vera í þeirri aðstöðu. Hver er lausnin sem því fólki hefur verið boðin? Ef það missir vinnuna í 15 virka daga er boðið upp á eingreiðslu að hámarki 48.000 kr. Myndum við láta bjóða okkur þetta? Og það er ekkert meira verið að gera. Hvers vegna í ósköpunum á að segja við þann hóp sem á í mestu erfiðleikunum af öllum: Þið fáið 48.000 kr. að hámarki eftir 15 daga frá vinnu vegna barnsins ykkar. Þið eruð neydd til þess vegna Covid. Þið verðið að gera þetta. En við ætlum að refsa ykkur.

Ég vona heitt og innilega að það verði breyting á þessu.