145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[11:25]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og er sammála honum um að það er mikilvægt að meta ávallt af yfirvegun stöðuna áður en hvert skref á þessari vegferð er tekið því að það skiptir mjög miklu máli að við höfum bæði um það ríka samstöðu á vettvangi stjórnmálanna og að við setjum ekki þjóðarbúið í óþarfahættu af útflæði. Það er hins vegar svolítið skondið, af því að hæstv. ráðherra rakti hér að mikilvægt væri að auka frelsi, að frelsinu virðist svolítið misskipt frá þessari ríkisstjórn. Kannski er skemmtilegasta dæmið um það að samkvæmt þessu frumvarpi og frumvörpunum sem við ræddum í gær verður Íslendingum heimilt núna að kaupa eina fasteign á ári í útlöndum. En þeir mega bara ekki fjármagna það með 40 ára jafngreiðsluláni nema þeir séu tekjulágir eða ungir. Þetta hlýtur náttúrlega, þegar maður er farinn að hlæja að samspili efnahagsstjórnar ríkisstjórnarinnar, að setja í svolítið skondið ljós þá orðræðu sem maður heyrir oft frá flokki hæstv. fjármálaráðherra um að hann sé á móti forsjárhyggju og vilji aukið athafnafrelsi. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. ráðherra til þess að þora að ganga aðeins lengra í frelsisátt og koma ekki með forskriftir um það hverjir megi taka tilteknar tegundir af lánum.