150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

njósnir Bandaríkjanna á Norðurlöndum.

[11:05]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst, svo það sé sagt, þá verða þessi mál að minnstum hluta á mínu borði. En ef hv. þingmaður vill fá skýrt hver skoðun mín er og hvernig ég beiti mér fyrir þessu þá er þetta þjóðaröryggismál. Mér finnst við Íslendingar hafa verið nokkuð sofandi þegar kemur að þeim málum. Þetta hefur verið tekið upp og ég hef vakið athygli á því hvað eftir annað að þetta eru mikilvæg mál. Öryggismál eru ekki bara þessi hefðbundnu öryggismál sem við þekkjum síðustu áratugi. Heimurinn er að breytast. Tækninni hefur fleygt mjög fram og við erum að sjá ógnir sem við höfum ekki séð áður. Það er ekki lítið mál, virðulegi forseti, að fara fram á það og leggja áherslu á að við tökum þátt í alþjóðlegu samstarfi til að verja okkur gegn þeim ógnum.

Ég vona að hv. þingmaður styðji mig í því af því að það er ekkert leyndarmál að ég tel að við þurfum að ganga harðar fram þegar kemur að netöryggismálum. Ef við erum bandamenn í því, virðulegi forseti, þá er það gott (Forseti hringir.) því að hér er verk að vinna.