138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[13:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta mál snýst um það eitt að við viljum sjá til þess að þeir sem þurfa á þjónustu að halda á Íslandi, íslenskir sjúklingar, fái þjónustu á heimsmælikvarða. Það liggur alveg fyrir að við erum búin að taka þetta mál margoft fyrir og skoða það gaumgæfilega og það er dýrt ef við förum einhverja aðra leið en að vera með starfsemi Landspítalans, sem er 1/3 af heilbrigðisþjónustu á Íslandi, undir einu þaki.

Það þýðir hins vegar ekki að þeir aðilar sem um þetta mál fjalla, í þessu tilfelli hv. fjárlaganefnd, eigi ekki að fara mjög gaumgæfilega yfir málið. Ég treysti því að það hafi hv. fjárlaganefnd gert. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson gerði ágætlega grein fyrir þeirri vinnu og hvar málið væri statt. Þetta er framfaramál og markmiðið er að við verðum með heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða (Forseti hringir.) og við megum aldrei kvika frá því markmiði, virðulegi forseti.