138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[20:47]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Fyrir okkur sem erum áhugamenn um stjórnskipunarmál, höfum menntað okkur á því sviði og reynt eftir föngum að kynna okkur málaflokkinn sem allra best, er auðvitað fengur að því þegar boðað er til umræðu á Alþingi um stjórnarskrána og allt sem henni tengist. Þó svo að í sjálfu sé ekki verið að leggja til stjórnarskrárbreytingar felur frumvarpið í sér breytingar á umgjörðinni sem farið hefur verið eftir varðandi breytingar á stjórnarskrá. Það þarf að breyta stjórnarskránni. Ég hef farið yfir það, bæði í fyrri ræðu minni í umræðunni um þetta tiltekna þingmál og margoft í ræðustól Alþingis, að stjórnarskránni þarf að breyta. Það eru fjölmörg atriði í stjórnarskránni sem hafa staðist illa tímans tönn og eru orðin barn síns tíma. Ég hef þar, hv. þm. Ögmundur Jónasson, sérstaklega nefnt ákvæði II. kafla stjórnarskrárinnar sem fjallar um forseta lýðveldisins og þau störf og þá ábyrgð sem á honum hvílir samkvæmt íslenskri stjórnskipan. Mörg ákvæði þar eru úr sér gengin og ekki í neinu samræmi við raunveruleikann eins og hann er.

Ég hef líka nefnt það að V. kafli stjórnarskrárinnar er býsna fátæklegur. Það er dálítið sérstakt að í stjórnarskrá ríkis sem býr við þrígreiningu ríkisvalds sem skiptist á milli löggjafarþings, framkvæmdarvalds og dómsvalds sé ekkert minnst á Hæstarétt Íslands. Það er nefnilega þannig með íslensku stjórnarskrána að á Hæstarétt Íslands er þar ekki minnst.

Við höfum líka bent á það að samhliða umræðu um breytingar á stjórnarskrá megi gera ýmsar aðrar reglur sem ekki er að finna í stjórnarskránni. Sumir eru þeirrar skoðunar að í hana þurfi að setja ákvæði varðandi auðlindir, fullveldi og fleiri atriði. Hér hafa komið fram hugmyndir um að samhliða breytingu á stjórnarskrá eigi menn að skoða breytingar á kjördæmaskipaninni. Í stjórnarskrárnefndinni sem starfaði hér komu t.d. fram áhugaverðar hugmyndir um stöðu forseta Alþingis í stjórnskipaninni. Komið hafa hugmyndir, t.d. frá Þorsteini Pálssyni, um að forseti Alþingis sé kjörinn beint. Allt eru þetta mjög áhugaverðar hugmyndir í umræðu um stjórnskipunarmál.

Í dag voru kynntar breytingartillögur við frumvarpið. Ef ég skil þær rétt eru lagðar til ákveðnar breytingar á því fyrirkomulagi sem upphaflegt frumvarp mælti fyrir um, sem fela það m.a. í sér að skipuð verði sjö manna sérfræðinganefnd sem á að undirbúa tillögur til stjórnlagafrumvarps sem lagt verði fyrir hið nýja stjórnlagaþing. Að sama skapi verði boðað til þjóðfundar sem hafi það hlutverk að ræða stjórnarskrána og þær tillögur sem frá sérfræðinganefndinni koma. Eftir sem áður gerir frumvarpið ráð fyrir því að Alþingi Íslendinga hafi lokaorðið um hvaða breytingar verði gerðar á stjórnarskrá okkar.

Mér sýnist að með breytingartillögunum stígi menn rétt skref. Ég held að það sé afar mikilvægt að til verksins verði kallaðir okkar færustu sérfræðingar á sviði stjórnskipunarréttar og eflaust víðar að úr samfélaginu til að teikna upp grunn sem hægt er að vinna með til framtíðar. Að sama skapi held ég að með því að boða til þjóðfundar, sem þjóðin er nú orðin býsna vön eftir að slíkir fundir hafa verið haldnir um allt land, sé komið ágætlega til móts við þá kröfu sem uppi hefur verið um að íslenskur almenningur hafi beinni aðild að umræðunni sem fram undan er um framtíð stjórnarskrár okkar, stjórnskipunar og þjóðskipulags. Síðan er lagt til að kallað verði til stjórnlagaþing sem er til þess kosið að fara enn frekar yfir tillögurnar.

Mér sýnist að það mundi bæði spara peninga og tíma að menn haldi sig við sérfræðinganefndina, kalli saman þjóðfund og láti síðan Alþingi Íslendinga fjalla um hugmyndirnar sem út úr þessu koma. Ég held að á stjórnlagaþinginu, eins og það er hér fram sett, sé ekki mikil þörf.

Hugmyndir sem fram hafa komið á þingi um stjórnlagaþing hafa komið mér dálítið spánskt fyrir sjónir. Ég hef lýst þeirri skoðun minni. Ég hef bent á það að samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fara Alþingi og forseti Íslands saman með löggjafarvald. Forseti og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskránni og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið og dómendur með dómsvaldið. Þetta er það ákvæði í stjórnarskránni sem í daglegu tali er kallað þrígreining ríkisvalds. Í þessu felst staða Alþingis Íslendinga innan stjórnskipunarinnar og gerir það að verkum að Alþingi er stjórnlagaþing, eins og ég veit að hæstv. forseti þekkir býsna vel. Við höfum því fyrir stjórnlagaþing. Ég hef gagnrýnt það að fram komi tillögur um það að stofnsett verði nýtt þing, nýtt stjórnlagaþing, við hlið þess stjórnlagaþings sem fyrir er. Í því felst í sjálfu sér grundvallarbreyting á þeim meginreglum sem stjórnskipun okkar hefur byggt á. Þetta er fráhvarf frá þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar sem mæla fyrir um þrígreiningu ríkisvaldsins. Ég sem þingmaður á þessu þingi, og vil veg þess sem mestan, vil frekar styrkja þingið sem fyrir er en að reisa annað við hliðina á því.

Þessi stofnun var stofnuð árið 1930. Hún er sú virðulegasta að mínu mati í samfélagi okkar og við eigum að standa um hana vörð.

(Forseti (ÁRJ): 930.)

Árið 930, afsakið. Við eigum að standa um hana vörð. Ég er ekki þeirrar skoðunar að menn geri það með því að stofna til annars þings við hliðina á því sem fyrir er. Við tölum hátíðlega um Alþingi, a.m.k. á tyllidögum. Við tökum á móti erlendum þjóðhöfðingjum og sýnum þeim þinghúsið stolt og tölum um þingið okkar með virðingu. Það eigum við að gera áfram. Þegar menn leggja til að verkefni þessa þings séu að einhverju leyti færð frá því fæ ég ekki séð að verið sé að styrkja og efla Alþingi Íslendinga

Ég sé að hæstv. forseti, sem er forseti Alþingis, hefur hlýtt á ræðu mína af mikilli athygli. Ég hef tekið eftir því að hún hefur ekki tekið þátt í umræðunni um stjórnlagaþingið. Það finnst mér býsna merkilegt í ljósi þess að verið er að leggja til að stofnað verði nýtt þing til hliðar við það sem fyrir er. Ég hefði haldið að forseti þingsins, stöðu sinnar vegna gagnvart þinginu og vegna stöðu þingsins í samfélaginu, ætti að hafa skoðun á því hvort stofnað verði til annars þings. (PHB: Í samkeppni.) Já, að sínu leyti í samkeppni eins og hv. þm. Pétur Blöndal nefnir. Ég bíð spenntur eftir sjónarmiðum núverandi forseta Alþingis. Ég tel að núverandi forseti Alþingis ætti að gjalda varhug við frumvarpinu og mælast gegn því að það verði samþykkt eins og það er, vegna stöðu sinnar gagnvart þinginu. Hæstv. forseti á að standa vörð um þingið og stöðu þess í samfélagi okkar. (Forseti hringir.) Þess vegna hlakka ég til að heyra viðhorf hæstv. forseta Alþingis til málsins, vegna þess að það varðar beint Alþingi sem hæstv. forseti stýrir .