144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

fyrningarfrestur í gjaldþrotaskiptum.

[11:14]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Fyrir örfáum vikum beindi ég hér fyrirspurn til félagsmálaráðherra vegna fjárhagsaðstoðar við gjaldþrotaskipti. Hún staðfesti það að sem betur fer ætti að endurskoða loksins þau lög næsta haust. Í kjölfar þess hef ég verið spurð um lög sem einnig voru samþykkt og styttu fyrningarfrest í gjaldþrotaskiptum. Þau lög átti að endurskoða í desember 2014. Unnur Brá Konráðsdóttir sem er formaður allsherjarnefndar tók þetta mál hérna upp í árslok og hafði þau tíðindi að færa að ákvæðin um tveggja ára fyrningarfrest væru enn í gildi og það virtist ekkert þurfa að staðfesta það. En hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir endaði mál sitt svona, með leyfi forseta:

„Nefndin beinir því hins vegar til innanríkisráðuneytisins að endurskoðun þessara laga fari fram líkt og kveðið er á um í bráðabirgðaákvæðinu og að allsherjar- og menntamálanefnd verði kynnt afstaða ráðuneytisins formlega.“

Nú langar mig að spyrja ráðherrann vegna þess að ekkert hefur komið fram um þetta: Mun koma fram á haustþingi tillaga um að festa þetta til einhverra ára í viðbót eða hvað? Þó að ráðuneyti segi að þetta sé í gildi þá finnst fólki það ekki alveg standa föstum fótum hvað raunverulega sé í gildi. Sumir segja: Er þá bara hægt að afnema þetta allt í einu? (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja ráðherrann út í þetta mál.